Haukar og Grindavík mættust í Schenkerhöllinni í kvöld í Dominosdeild kvenna. Fyrir viðureignina voru bæði lið án ósigurs og þau einu í deildinni sem voru það. Því mikilvægur leikur fyrir gortið.
Fyrstu þrír leikhlutarnir voru mjög jafnir og var baráttan í þriðja leikhluta sérstaklega skemmtileg. Í fjórða leikhluta gerðist hinsvegar tvennt, Haukar settu á fullt gas og keyrðu áfram á meðan að hjá Grindavík gekk allt á afturfótunum og fóru Haukastúlkur illa með þær gulu þar sem þær unnu leikhlutann 21-5.
Whitney Michelle Frazier var sú eina sem gekk eitthvað að skora í opnum leik á meðan allar hinar brenndu af fleiri sniðskotum en þær vilja muna. Hún og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir voru þær einu sem skoruðu yfir 10 stig hjá Grindavík. Lilja Ósk Sigmarsdóttir var þó mjög dugleg í frákastadeildinni.
Hjá Haukunum voru þrjár með yfir 10 stig þar sem Pálína María Gunnlaugsdóttir og Helena Sverrisdóttir voru í sínum venjulega sérflokki. Pálína nálægt þrefaldri tvennu með 16 stig, 9 fráköst og 7 stolna bolta og Helena með sína aðra þrefalda tvennu í röð en hún var með 15 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar. Sylvía Rún Hálfdanardóttir átti einnig mjög fínan leik en hún var meðal annars með 4 varin skot.
Grindavík skoruðu fyrstu tvær körfur leiksins eftir vel útfærðar sóknir. Haukastúlkur voru eitthvað utan við sig en Pálína María Gunnlaugsdóttir setti 5 stig í röð fyrir til að vekja þær. Leikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á körfum. Petrúnella Skúladóttir fékk óviljandi olnboga í nefið þegar hún var að verjast Þóru Kristínu Jónsdóttur. Var hún ekki par ánægð með það og hamraði hún niður þrist meter fyrir utan þriggjastigalínuna í næstu sókn, Haukum til refsingar, og kom Grindavík yfir 8-11. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 14-16.
Annar leikhluti fór frekar rólega af stað en eins og góð dísilvél héldu Grindvíkingar áfram leiksínum af mikilli yfirvegun á meðan að það var aðeins meiri vandræðagangur yfir Haukunum. Var staðan 18-22 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Eftir það komust Haukastúlkur í gang og að sama skapi kom hikst á dísilvél Grindvíkinga og enduðu Haukar fyrri hálfleikinn á 14-5 kafla og staðan þá 32-27.
Í hálfleik var Pálína Gunnlaugsdóttir stigahæst hjá heimastúlkum með 9 stig, 5 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolnar bolta.
Hjá gestunum var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir stigahæst með 9 stig og 6 fráköst.
Grindavík mættu grimmar til seinni hálfleiks og yfirspiluðu Hauka 7-2 á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhluta. Sem hefði getað verið töluvert meira en þær gulklæddu brenndu af þónokkrum sniðskotum undir körfunni. Við þetta bættist töluverð harka í leik beggja liða og var ekkert gefið eftir. Hart var barist um hvern bolta hvort sem það var eftir frákast eða tapaðan bolta. Bæði lið þurftu að hafa mikið fyrir hverju stigi og munaði stundum ekki miklu að tæknivillur myndu fljúga. Var staðan 44-43 fyrir loka átökin.
Haukar hófu leikhlutann á 5-0 áhlaupi þar sem Helena átti tvívegis langar stoðsendingar yfir völlinn. Mikið rót var á vörn Grindavíkur á þessum tímapunkti og fékk Whitney Michelle Frazier sína fjórðu villu þegar ennþá voru sjö og hálf mínúta til stefnu. Það tók Grindavík rétt tæpar 4 mínútur til að komast á blað og minnka muninn í 51-45. Haukar áttu þá kafla þar sem þær fengu þó nokkur opin skot en nýttu þau ekki. Grindavík tókst ekki að nýta sér það heldur þrátt fyrir að fá sniðskot eftir sniðskot þar sem boltinn rúllaði alltaf af hringnum hjá þeim. Helena Sverrisdóttir tók þá yfir leikinn í smástund og tókst með mikilli kænsku að fiska tvær villur á Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur, sem vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið, á stuttum tíma. Með rétt tæpar þrjár mínútur til leiksloka voru Haukar komnar í 60-45 þar sem Helena Sverrisdóttir sendi á Sylvíu Rún Hálfdanardóttur sem var galopin fyrir utan og með með þeirri stoðsendingu landaði hún þrefaldri tvennu annan leikinn í röð. Björninn var þar með unninn og voru lokatölur leiksins 65-49.
Viðtöl