spot_img
HomeFréttirHaukar tóku fyrsta leikinn

Haukar tóku fyrsta leikinn

Haukar og Keflavík mættust í fyrsta leik einvígis þeirra í Schenkerhöllinni í dag. Haukar voru tilbúnar í leikinn frá fyrstu mínútu en það tók Keflavík 15 mínútur að átta sig á því að undanúrslitin væru hafin. Þær tóku hinsvegar við sér og fóru að þátttakendur í leiknum en Haukar voru of sterkar og kláruðu leikinn öruggara en lokatölurnar segja til um en leikurinn fór 66-61 fyrir Haukum sem leiða því 1-0.
 
Haukar byrjuðu af miklum krafti bæði varnar og sóknarlega en þær skoruðu 5-0 á fyrstu tveimur mínútunum og stálu boltanum tvívegis á þeim tíma. Keflavík voru mjög utangátta í byrjun en áttu svo 6-0 kafla og komu sér þar af leiðandi 5-6 yfir. Leikurinn var mjög jafn það sem eftir var af leikhlutanum þar sem tekist var hart á í vörninni og var staðan 10-8 að honum loknum.
 
Lele Hardy setti af stað smá skotsýningu á fyrstu mínútum annars leikhluta þar sem hún skoraði fyrstu 10 stig Hauka og þar af tvo þrista. Dagbjört Samúelsdóttir bætti svo við og kom Haukum í 23-11. Bryndís Guðmundsdóttir og DiAmber Johnson kveiktu neista hjá Keflavík með sitt hvorum þristnum og hófst þá kafli með mjög góðri spilamennsku hjá þeim þar sem þær minnkuðu muninn niður í aðeins fjögur stig 31-27. Hardy sá hinsvegar til þess að Haukar væru 34-27 yfir í hálfleik.
Haukar voru að frákasta gríðarlega vel og voru þær með 28 fráköst í hálfleik og þar af 14 sóknarfráköst á meðan að Keflavík voru með 13 varnarfráköst.
 
Þetta var orðið að alvöru leik í þriðja leikhluta þar sem Keflavík sóttu vel á Hauka og héldu sér ekki langt undan þeim. En Haukar spiluðu mjög harða vörn og lentu þar af leiðandi í smávægilegum villuvandræðum, voru með 14 villur á móti aðeins 7 hjá Keflavík. Keflavík lentu svo illa í því í lok leikhlutans en Haukar kláruðu hann á 7-0 áhlaupi þar sem að Íris Sverrisdóttir varð gríðarlega ósátt við villu sem hún fékk dæmda á sig og svaraði fyrir sig með því að smella niður þrist. Sara Rún Hinriksdóttir fékk síðan dæmda á sig óíþróttamannslegavillu þegar hún hélt í Hardy eftir að hún var sloppin framhjá henni. Haukar því með 11 stiga forskot fyrir fjórða leikhlutann, 55-44.
 
Hardy var orðin þreytt á mun liðanna í fjölda villna og fór hún stíft að körfunni til að fiska villur. Hardy varð síðan fyrir smá hnjaski þegar Lovísa Falsdóttir var full aðgangshörð í að stíga hana út þannig að hún datt illa á hliðina. Hún fékk aðhlynningu og þurfti að fara útaf vellinum í smá stund en það leið þó ekki á löngu þangað til að hún var mætt aftur inn á völlinn.
Keflavík bættu sig töluvert í fráköstum og var lítill munur þar á liðunum að leik loknum en það ásamt fínum endaspretti hjá þeim var ekki nóg til að landa sigri þar sem Haukar unnu 66-61.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -