spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaHaukar sýndu mátt sinn og megin í seinni hálfleik

Haukar sýndu mátt sinn og megin í seinni hálfleik

Haukar lögðu heimakonur í Breiðablik í Smáranum í kvöld í 21. umferð Subway deildar kvenna, 55-95. Eftir leikinn eru Haukar í 3. sæti deildarinnar með 34 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 8 stig.

Fyrir leik

Liðin tvö á mjög ólíkri vegferð það sem af er vetri. Haukar að berjast við Val og Keflavík um deildarmeistaratitilinn á meðan að Breiðablik hefur verið í baráttu um að lenda ekki í fallsæti við ÍR.

Bæði gerðu liðin nokkuð vel í síðustu umferð. Þar sem að Breiðablik hafði betur gegn ÍR í mikilvægum leik á meðan að Haukar unnu Íslandsmeistara Njarðvíkur.

Haukar og Breiðablik höfðu í tvígang mæst áður í deildinni í vetur og höfðu Haukar sigur í báðum viðureignum. Með 20 stigum í lok október í Smáranum, 54-74 og síðan 22 stigum í lok desember í Ólafssal, 68-46.

Gangur leiks

Eftir frekar jafna byrjun á leiknum sigla heimakonur í Breiðablik framúr í seinni hluta fyrsta fjórðungs. Þegar hlutinn er á enda eru þær 7 stigum yfir, 20-13. Haukar opna annan leikhlutann á sterku 11-3 áhlaupi og er því komnar með forystuna þegar aðeins 3 mínútur eru liðnar af fjórðungnum, 23-24. Leikurinn helst svo í nokkru jafnvægi fram til loka fyrri hálfleiksins, en þegar liðin halda til búningsherbergja eru það Haukar sem eru skrefinu á undan, 30-33.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Anna Soffía Lárusdóttir með 14 stig á meðan að í nokkuð jöfnu liði Hauka, þar sem átta leikmenn voru komnir á blað í stigaskorun, var Tinna Guðrún Alexandersdóttir stigahæst með 7 stig.

Haukakonur mæta fílefldar til leiks inn í seinni hálfleikinn. Gera nánast út um leikinn með sterkum 10-29 leikhluta og eru 22 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 40-62. Fjórði leikhlutinn var svo að er virtist auðveldur fyrir Hauka, sem héldu áfram og bæta við forskot sitt og sigra leikinn að lokum, 55-95.

Atkvæðamestar

Best í liði Hauka í kvöld var Keira Robinson með 11 stig, 7 fráköst, 10 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Þá skilaði Sólrún Inga Gísladóttir 20 stigum og Lovísa Björt Henningsdóttir 19 stigum.

Fyrir heimakonur í Breiðablik var Anna Soffía Lárusdóttir atkvæðamest með 18 stig, 5 fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir skilaði 12 stigum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi sunnudag 26. febrúar, en þá heimsækja Haukar lið ÍR í Skógarselið á meðan að Breiðablik fær Val í heimsókn í Smárann.

Tölfræði leiks

Viðtöl / Márus Björgvin

Fréttir
- Auglýsing -