Haukar og Valur öttu kappi í B-hluta Iceland Express-deildar kvenna í kvöld á Ásvöllum. Valsstúlkur vermdu botnsætið fyrir leik kvöldsins en Haukastúlur eru voru efstar í B-hlutanum. Í hörkuleik höfðu Haukastúlkur betur 70-64 en Valskonur sýndu fína takta á köflum.
Landsliðskonan Guðrún Ámundadóttir opnaði leikinn með tveimur stigum, sem reyndust hennar einu stig, og kom heimastúlkum yfir. Telma Fjalarsdóttir setti sniðskot eftir sóknarfrákast og Haukastelpur voru sprækari í upphafi. Komust þær í 10-2 en Sigríður Viggósdóttir var fyrst á blað hjá Völsurum. Ösp Jóhannsdóttir setti þrist fyrir Val og minnkaði muninn í fimm stig, en Flúðastelpan Ösp þekkir án efa ágætlega til á Ásvöllum en hún lék með Haukum um árabil.
Valsarar minnka muninn í eitt stig 10-9 með fjórum stigum frá Dranadia Roc en hún var atkvæðamest Valskvenna í kvöld með 34 stig. María Lind Sigurðardóttir kom inná í lið Hauka um miðjan fyrsta leikhluta og stóð sig afar vel. Barðist af krafti og sýndi flotta takta á báðum endum vallarins. Liðin skiptust á körfum út leikhlutann og Haukar leiddu með tveimur stigum 23-21 eftir fyrsta leikhlutann.
Haukar skoruðu fyrstu fjögur stig annars leikhluta og juku muninn í sex stig. Hin 16 ára gamla Ragnheiður Benónísdóttir, sem kom til Vals frá Ármanni fyrir tímabilið, minnkaði muninn í tvö stig 27-25 eftir að Dranadia Roc fann hana.
Annar leikhluti var ekkert ólíkur þeim fyrsta. Mikil barátta var í báðum liðum sem fráköstuðu mjög vel. Munurinn var aldrei nema nokkur stig en Haukastelpur voru þó ávallt einu skrefi á undan og leiddu þær með þremur stigum í hálfleik 41-38.
Í seinni hálfleik sýndu Valsstúlkur áfram fínan leik enda eru þær að berjast fyrir tilveru sinni meðal þeirra bestu. Þær hófu seinni hálfleik á því að setja tvö stig og var þar að verki Sigríður Viggósdóttir en hún skoraði einnig fyrstu stig Vals í fyrri hálfleik. Þá kom ágætur kafli hjá Haukum þar sem þær skoruðu næstu sex stig leiksing og munurinn kominn í sjö stig 47-40. Án efa héldu einhverjir á Ásvöllum að þar með væru heimastúlkur að fara stinga af. En svo reyndist ekki vera en Dranadia Roc setti fimm stig í röð og minnkaði muninn á ný í tvö stig 47-45. Enn á ný náðu Haukar að keyra muninn upp og að þessu sinni í átta stig 55-47 en lokastig þriðja leikhluta átti Berglind Ingvarsdóttir og munurinn því sex stig þegar lokaleikhlutinn hófst 55-49.
Haukar náðu betri tökum á leiknum í lokaleikhlutanum og juku muninn í 10 stig mjög fljótlega en hann varð mestur 15 stig 70-55 þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum. Valsarar skoruðu síðustu níu stig leiks og lokatölur 70-64 heimastúlkum í vil.
Stigahæst hjá Haukum var Heather Ezell með 22 stig og 14 fráköst en tíu þeirra tók hún í fyrri hálfleik. Ragna Margrét Brynjarsdóttir átti einnig fínan leik með 13 stig og 5 fráköst. Telma Fjalarsdóttir var nálægt hálfgerði tröllatvennu en hún skoraði 9 stig og tók 16 fráköst. Varamaðurinn María Lind Sigurðardóttir spilaði einnig mjög vel en hún skoraði 8 stig og tók 9 fráköst.
Hjá Val var Dranadia Roc atkvæðamest með 34 stig en hún hafði mikið fyrir þeim og á köflum reyndi hún aðeins of mikið. En þarna er öflugur leikmaður á ferð. Ösp Jóhannsdóttir var mjög sterk og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hin unga Ragnheiður Benónísdóttir vakti athygli en hún skoraði sex stig og tók 10 fráköst í leiknum en hún byrjaði leikinn. Þórunn Bjarnadóttir spilaði einnig ágætlega þó hún kæmist ekki á blað í kvöld en hún gerði margt annað sem skipti máli.
Mynd/Tomasz Kolodziejski – Helena Hólm að sækja að körfu Valskvenna í kvöld



