spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaHaukar stálheppnir að sleppa með tvö stig úr Skógarseli

Haukar stálheppnir að sleppa með tvö stig úr Skógarseli

Haukar lögðu ÍR í Skógarseli í kvöld í Subway deild karla, 88-95. Eftir leikinn er ÍR í 11. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan að Haukar eru í 4. sætinu með 24 stig.

Fyrir leik

Bæði lið höfðu haft talsvert góðu gengi að fagna síðustu vikur. Hauak í þriðja sæti deildarinnar með sjö sigra í síðustu tíu leikjum. ÍR hinsvegar að ná voðnum sínum eftir erfiða byrjun á tímabilinu, með sigur í tveimur síðustu leikjum.

Fyrir leik var ljóst að Luciano Masarelli hefði lokið leik þetta tímabilið fyrir ÍR vegna meiðsla á hnéi. Að öðru leyti var lið ÍR fullmannað í leiknum. Hjá Haukum voru einnig allir heilir, en þá vantaði enn Róbert Sigurðarson sem hefur verið frá síðustu mánuði.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Heimamenn í ÍR ná þó að einhverju leyti að svara hverju einasta áhlaupi þeirra á upphafsmínútunum. Munurinn sjö stig eftir fyrsta leihluta, 21-28. Með góðu áhlaupi um miðbygg annars leikhlutans nær ÍR að snúa taflinu sér í vil og eru þeir 4 stigum yfir þegar þrjár mínútur eru til hálfleiks, 42-38. Þeir ná svo að vera skrefinu á undan út fyrri hálfleikinn, en þegar liðin halda til búningsherbergja er staðan 54-47 heimamönnum í vil

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Hákon Örn Hjálmarsson með 11 stig á meðan að fyrir Hauka var Darwin Davis kominn með 15 stig.

Heimamenn í ÍR gera vel að halda forystu sinni í upphafi seinni hálfleiksins. Haukar gera í raun og veru enga alvöru atlögu að forskotinu í þriðja leikhlutanum og það eru heimamenn sem leiða með 10 stigum fyrir lokaleikhlutann, 73-63.Engin teljandi villuvandræði voru á liðunum fyrir síðustu 10 mínútur leiksins. Stórir menn beggja liða, Norbertas Giga hjá Haukum og Taylor Johns hjá ÍR voru báðir komnir með 3 villur.

Haukar ná aðeins að vinna á forskoti heimamanna í byrjun fjórða leikhlutans og þegar rétt rúmar fimm mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma eru þeir aðeins tveimur stigum undir, 77-75. Leikurinn er svo í járnum allt fram á lokamínúturnar, þar sem heimamenn ná að hanga dauðagripi á forystunni og eru 2 stigum yfir þegar 2 mínútur eru eftir, 88-86. Þegar rétt rúm mínúta er eftir ná Haukar svo loks að jafna leikinn aftur með erfiðum tvist frá Darwin Davis, 88-88. Í kjölfarið fær leikmaður ÍR Taylor Johns sína fimmtu villu og Haukar komast yfir þegar tæp mínúta er eftir, 88-90. Heimamenn fara mjög illa að ráði sínu á lokasekúndunum, bæði tapa boltanum og gefa sóknarfráköst. Þegar rúmar 9 sekúndur eru eftir ísar leikmaður Hauka Daniel Mortensen svo leikinn með því að setja Hauka 5 stigum yfir með þrist, 88-93. Niðurstaðan að lokum 7 stiga sigur Hauka, 88-95.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Hauka í dag var Daniel Mortensen með 22 stig og 9 fráköst. Honum næstur var Darwin Davis með 29 stig og 5 stoðsendingar.

Fyrir ÍR var Taylor Johns atkvæðamestur með 15 stig, 14 fráköst og Martin Passoja bætti við 20 stigum og 9 fráköstum.

Hvað svo?

Leikurinn var sá síðasti hjá báðum liðum fyrir landsleikjahlé, en eftir það eiga ÍR leik gegn Þór í Þorlákshöfn þann 5. mars. Haukar leika svo degi seinna heima í Ólafssal gegn Njarðvík.

Tölfræði leiks

Mynhdasafn (Atli Mar / Væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -