spot_img
HomeFréttirHaukar sigurvegarar á Ljósanæturmótinu

Haukar sigurvegarar á Ljósanæturmótinu

 
Í kvöld fóru fram úrslitaleikir Ljósanætursmótsins og þar sem að ljóst var í gærkvöldi hvaða lið myndu spila til úrslita þá var spilað venjulega leiki í kvöld. Fyrri leikurinn var um þriðja sætið en þar voru það KR og Njarðvík sem að voru að berjast og endaði leikurinn þannig að KR fór með sigur af hólmi. Seinni leikurinn var svo úrslitarimman þar sem að Haukar og Snæfell áttust við og í ár voru það Haukar sem unnu mótið.
Eins og áður sagði voru það KR sem hrepptu þriðja sætið eftir 75-66 sigur á Njarðvík. Það var mikill haustbragur á báðum liðum enda þó nokkuð af breytingum hjá báðum liðum. KR er enn að slípa sig saman eftir að hafa fengið þó nokkra nýja leikmenn og Njarðvík er að mestu að spila á sínum ungu stelpum sem að komu margar hverjar bara nokkuð vel út. Þess má geta að í grænu sást Petrúnella nokkur Skúladóttir spila og lítur út fyrir að hún sé komin aftur í grænt eftir að Grindavík dró lið sitt úr Iceland Express deild kvenna.
 
Stigahæst hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 26 stig en þar á eftir var Hafrún Hálfdánardóttir með 15 stig og Bryndís Guðmundsdóttir með 13 stig. Hjá Njarðvíkum var það svo Ólöf Helga Pálsdóttir sem var með 20 stig og þar á eftir var Aníta Carter með 11 stig.
 
Haukar unnu Snæfell 84-76 í baráttuleik um gullið í þessu móti. Leikurinn var aðeins hraðari en sá fyrri þar sem mikil barátta var í fyrirrúmi og virtust bæði lið vera komin á ágætis ról. Það var ekki aðeins hiti á gólfinu í kvöld þar sem að báðir þjálfarar Snæfells uppskáru sína tæknivilluna hvor eftir að ekki var dæmt þegar brotið var á Öldu Leif Jónsdóttur í þriðja leikhlutanum. Alda Leif fór upp að körfu Hauka og var slegin í andlitið en ekkert dæmt. Þjálfarar Snæfells voru ekki sáttir með þetta og enduðu, eins og áður sagði, með sitthvora tæknivilluna. Við það fengu Snæfells stelpurnar smá orku en Haukarnir héldu haus og kláruðu leikinn.
 
Stigahæst hjá Haukum voru Íris Sverrisdóttir og Jence Rhoads með 22 stig hvor og síðan var Gunnhildur Gunnarsdóttir með 19 stig. Það var svo Shannon McKever sem var stigahæst hjá Snæfell með 25 stig, en þar á eftir var Hildur Björg Kjartansdóttir með 19 stig og Helga Hjördís Björgvinsdóttir með 17 stig.
 
Mynd/ Tomasz Kolodziejski: Íris Sverrisdóttir gerði 22 stig í kvöld þegar Haukar höfðu sigur á Ljósanæturmótinu.
 
Fréttir
- Auglýsing -