spot_img
HomeFréttirHaukar settu í gírinn í lokin og úrslitaeinvígið bíður þeirra

Haukar settu í gírinn í lokin og úrslitaeinvígið bíður þeirra

Haukar komust í kvöld í úrslitaeinvígi Dominos deildar kvenna eftir sigur á Skallagrím í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna. Skallagrímur var sterkari aðilinn í byrjun leiks en Haukar náðu forystunni þegar leið á og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur. 

 

Gangur leiksins:

 

Borgnesingar voru mjög greinilega tilbúnar að skilja allt eftir á gólfinu í byrjun leiks og gefa Haukum alvöru leik í kvöld. Skallagrímur komst fljótt í 16-4 forystu þar sem Carmen Tyson-Thomas dróg vagninn. Sigrún Björg sem hefur gert frábærlega í seríunni að gæta Carmen fékk fljótt tvær villur og gat því ekki beitt sér nægilega gegn henni í fyrri hálfleik. 

 

Ansi langt stopp kom á leikinn um miðbik annars leikhluta þegar Gunnhildur Lind Hansdóttir leikmaður Skallagríms meiddist illa á hné. Hún var greinilega sárkvalin og voru liðsfélagar hennar slegnir af laginu í örskamma stund. Skallar náðu þó að jafna leikinn með góðum endasprett í fyrri hálfleik og staðan í hálfleik var 29-29. 

 

Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Haukarnir náðu að slá Skallagrím frá sér. Vörn liðsins hertist mjög og Whitney Fraizer sallaði niður stigum fyrir Hauka. Carmen var orðin ansi þreytt enda vörn Hauka náð að hamast ansi mikið á henni í seríunni. Haukarnir náðu í fína forystu í lokin og unnu 77-63 sigur á Skallagrím. 

 

 

Hetjan:

 

Að vanda voru það þær Whitney Fraizer og Helena Sverrisdóttir sem voru bestu leikmenn vallarins. Whitney setti liðið á herðar sér í seinni hálfleik sóknarlega og setti nokkrar körfur í röð. Hún endaði með 31 stig og 14 fráköst. Helena var ótrúlega nálægt þrefaldri tvennu og endaði með 20 stig, 19 fráköst og 9 stoðsendingar. 

 

Hjá Skallagrím var Sigrún Sjöfn öflugust með 18 stig, 10 fráköst og þrjá varða bolta. Carmen var einnig sterk að vanda en skotnýting hennar var afleit í leiknum. Þá má nefna framlag Bríetar Lilju sem var barðist mikið og sýndi flott tilþrif sóknarlega í lokin. 

 

 

Kjarninn: 

 

Skallagrímur getur nokkuð vel við unað eftir tímabilið sem lauk í dag. Liðinu gekk ansi illa framan af tímabili og var Richi Gonzales rekinn í janúar. Væntanlega er hægt að skrifa nokkrar grátbroslegar um tímabilið í heild. Ari Gunnarsson gerði frábærlega eftir að hann tók við liðinu að finna gleðina og hámarka árangurinn. Liðið einfaldlega var númeri of lítið fyrir Haukana í þessari seríu. 

 

Hafnfirðingar eru skrefi nær stóra markmiðinu. Þær eru vel af því komnar en þurfa að gera mun betur í úrslitaseríunni. Liðið tapaði 24 boltum í leiknum í kvöld og vörnin var of óstöðug. Það þýðir þó lítið þegar liðið hefur sópað undanúrslitum og með deildarmeistaratitilinn á bakinu. Það kemur í ljós á næstu dögum hvaða lið mætur Haukum en það verður annað hvort Valur eða Keflavík.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Ólafur Þór)

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -