spot_img
HomeFréttirHaukar sendu Tindastól í þriðja sætið

Haukar sendu Tindastól í þriðja sætið

Haukar tóku í kvöld á móti Tindastóli í lokaumferð Domino’s deildar karla þetta árið. Haukar höfðu þegar tryggt sæti sitt í deildinni með sigri gegn Stjörnunni og höfðu því að engu að keppa, en með sigri gátu gestirnir úr Skagafirði gulltryggt annað sætið í deildinni. Það var ekki að sjá á leik Hauka að þeir hefðu að engu að keppa, en eftir að Stólarnir náðu 12 stiga forystu í fjórða leikhluta sneru heimamenn taflinu heldur betur sér í vil og höfðu að lokum flottan sigur, 77-74. Haukar ljúka því leik á tímabilinu með sæmd, en Tindastólsmenn féllu með tapinu niður í þriðja sæti deildarinnar, þar sem Stjarnan vann KR á sama tíma.

 

Lykillinn

Eftir að Stólarnir höfðu komist 12 stigum yfir í fjórða leikhluta virtist fátt geta komið í veg fyrir að Skagfirðingar hirtu annað sæti deildarinnar. Þá tóku Haukar hins vegar við sér og gjörsamlega lokuðu vörninni hjá sér og tóku 26-4 áhlaup á gestina sem vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið. Það er óhætt að segja að þetta áhlaup hafi verið lykillinn að sigri heimamanna í kvöld, en þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir Skagfirðinga til að bjarga leiknum náðu Haukar að landa sigrinum.

 

Hetjan

Cedrick Bowen skoraði 19 stig fyrir Hauka úr alls konar færum. Flottur leikur hjá Bowen og var skemmtilegt að fylgjast með baráttu hans og Antonio Hester undir körfunni. Hester skoraði einnig 19 stig fyrir gestina.

 

Tölfræðin

2:52. Fyrstu stig leiksins litu ekki dagsins ljós fyrr en að loknum 2 mínútum og 52 sekúndum, þegar Haukur Óskarsson kom heimamönnum í 2-0. Pétur Rúnar Birgisson jafnaði síðan metin af vítalínunni þegar 4 mínútur og 23 sekúndur voru liðnar af leiknum. Erfið fæðing hjá liðunum.

 

Framhaldið

Haukar eru farnir í sumarfrí eftir þrjá sterka sigra í röð, þar af tvo gegn liðunum í öðru og þriðja sæti. Skagfirðingar enda hins vegar deildakeppnina í þriðja sæti og mæta Keflavík annað árið í röð í átta liða úrslitum. 

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -