spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHaukar of stór biti fyrir Þór

Haukar of stór biti fyrir Þór

Þór er úr leik í 32 liða úrslitum Geysisbikars karla í körfubolta eftir 13 stiga tap gegn úrvalsdeildarliði Hauka 71-84.

Það lá alveg ljóst fyrir að róðurinn yrði Þór þungur gegn Haukum en leikmenn Þórs geta gengið stoltir frá leiknum þegar upp er staðið. En eins og Lárus þjálfari bendir réttilega á þá eru Haukar þegar er staðið með mjög gott úrvalsdeildarlið, og þegar leið á leikinn nýttu þeir sér að búa yfir meiri breidd þegar leikmenn Þórs tóku að þreytast í síðari hálfleik.

Í fyrri hálfleik var ávallt jafnræði með liðunum og munurinn á bilinu 2-6 stig gestunum í hag. Haukar leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta 15-19. Annar leikhlutinn var jafn og spennandi og mesti munurinn í fjórðungnum var 5 stig 34-39 þegar um mínúta var eftir af fyrri hálfleik. Þórsarar skoruðu 5-0 áður en flautað var til hálfleiks og staðan 39-39. Þór vann leikhlutann 24-20.

Segja má að Haukar hafi nýtt sér vel að vera með mun meiri breidd í sínu liði og þannig keyrðu þeir hratt á Þórsliðið í þriðja leikhluta og þá fór þreyta hjá heimamönnum að gera vart við sig. Haukar náðu með 12 stiga forskoti í leikhlutanum sem þeir unnu 12-22 og leiddu með 10 stigum þegar fjórði leikhlutinn hófst 51-61.

Þennan mun náðu Þórsarar aldrei að vinna upp þótt í tvígang hafi þeir komið muninum niður í 8 stig. Eins og Lárus bendir á í viðtali hér að neðan eru Haukar á hærra plani en Þór enda deild ofar og þeir sigldu öruggum 13 stiga sigri í höfn með því að vinna fjórða leikhlutann 20-23.

Og eins og Lárus bendir á verður að segja það eins og það er að sigur Hauka var verðskuldaður og þeir eru komnir í 16 liða úrslit á kostnað Þórs.

Tveir fyrrum leikmenn Þórs þeir Marques Oliver og Hilmar Smári nú leikmenn Hauka fundu sig vel í kvöld á sínum gamla heimavelli og samtals skoruðu þeir 34 stig. Marques var með 20 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar og Hilmar Smári 14 stig. Hjá Þór var sem fyrr Damir Mijic stigahæstur með 17 stig og 10 fráköst en hann hefur oftast leikið betur en í kvöld.

Framlag leikmanna Þórs. Damir Mijic 17 stig og 10 fráköst, Larry Thomas 14 stig 9 fráköst og 3 stoðsendingar, Baldur Örn 11 stig og 3 fráköst, Júlíus Orri 10 stig og 6 fráköst, Kristján Pétur 8 stig og 5 fráköst, Bjarni Rúnar 6 stig og 5 fráköst og Ingvi Rafn 5 stig 2 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hjá Haukum var Marques með 20 stig 13 fráköst og 4 stoðendingar, Matic Macek 18 stig og 4 fráköst, Hilmar Smári 14 stig 4 fráköst og 3 stoðsendingar, Daði Lár 13 stig og 7 fráköst, Kristinn Marinós 6 stig og 8 fráköst, Hamid Dicko og Haukur Óskars 4 stig hvor, Arnór Bjarki 3 stig og Adam Smári 2 stig.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Viðtöl:

 

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Páll Jóhannesson

Fréttir
- Auglýsing -