spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHaukar með stórsigur í fyrsta leik

Haukar með stórsigur í fyrsta leik

Fyrstu umferð 1. deildar karla lauk í kvöld þegar nýliðar ÍA tóku á móti Haukum í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Skagamenn tóku sæti í 1. deild þegar Reynir frá Sandgerði dró sig úr keppni fyrr í haust, og höfðu því ekki haft mjög rúman tíma til undirbúnings fyrir fyrsta leik. Andstæðingarnir í fyrsta leik voru ekki í minni kantinum, Haukar úr Hafnarfirði sem féllu úr úrvalsdeildinni síðasta vor.

Leikur kvöldsins varð aldrei spennandi. Allt frá fyrstu mínútu var ljóst að Skagamenn voru að mæta ofjörlum sínum. Haukar stjórnuðu ferðinni frá A-Ö, skoruðu nánast að vild og gáfu Skagamönnum ekkert í vörninni.

Lokatölur leiksins voru 44-120, gestunum í vil, og byrja Hafnfirðingar því á stórsigri í fyrsta leik. Shemar Deion Bute var stigahæstur gestanna með 26 stig og tók þar að auki 11 fráköst. Hjá Skagamönnum var nýr erlendur leikmaður þeirra, Nestor Elijah Saa stigahæstur með 17 stig.

Næsti leikur Skagamanna er 1. október næstkomandi á útivelli gegn Hrunamönnum. Á sama tíma taka Haukar á móti Sindra í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Myndir / Jónas H

Fréttir
- Auglýsing -