spot_img
HomeFréttirHaukar með öruggan sigur í lokaumferðinni

Haukar með öruggan sigur í lokaumferðinni

Haukar og KR mættust í lokaumferð Dominosdeildarinnar í kvöld þar sem KR þurfti á sigri, eða treysta á hagstæð úrslit, til að halda sér í Úrvalsdeildinni að ári. Þeim tókst ekki að landa sigrinum í kvöld þar sem Haukar unnu nokkuð sannfærandi 69-52, en þeim til happs skipti það ekki máli þar sem önnur úrslit voru þeim í hag.

Lele Hardy átti stórleik að venju en hún var með 25 stig, 21 frákast og 7 stoðsendingar í leiknum. Næstar komu María Lind Sigurðardóttir með 10 stig og Auður Íris Ólafsdóttir sem var með 5 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá KR var Simone Jaqueline Holmes efst á blaði með 15 stig og 4 fráköst og næst henni voru Bergþóra Holton Tómasdóttir með 11 stig og 6 fráköst og síðan Björg Guðrún Einarsdóttir með 6 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst.

Leikar fóru rólega af stað og var mjög lítið skorað. Haukar óðu þó í færum en voru með frekar lélega skotnýtingu, eða 4 af 17 skottilraunum. Minna var um færin hjá KRingum þar sem að vörn Haukanna var mjög þétt fyrir og hleyptu þær þeim ekki auðveldlega að körfunni. KR lentu í því í tvígang að þurfa neyðarþrist vegna skotklukku. KR gátu þó huggað sig við það að staðan var aðeins 10-8 að loknum fyrsta leikhluta.

Haukar tóku á rás í upphafi annars leikhluta og áttu 8-0 kafla áður en KR tókst að svara. KR komu aðeins til baka en Haukar tóku síðan aftur á rás. Þóra Kristín Jónsdóttir endaði síðan fyrri hálfleikinn á tveimur þristum í röð sem kórónaði 8-0 lokakafla Hauka sem sá til þess að þær leiddu með 16 stigum, 39-23, í hálfleik.

Liðin mættu ekkert alltof áköf til leiks í síðari hálfleik og virtist stemmningin vera sú að úrslit væru ráðin og ætti bara eftir að spila út leiktímann. Leikhlutinn fór 15-12 fyrir Hauka og staðan því nokkuð afgerandi fyrir lokaleikhlutann, 54-35. Bæði lið gáfu þeim leikmönnun sem spila venjulega lítið að spreyta sig í fjórða leikhluta og stóð þar Þórkatla Dagný Þórarinsdóttir upp úr en hún skoraði 6 stig, hirti 2 sóknarfráköst og átti eina stoðsendingu á rétt tæpum fimm mínútu í leikhlutanum og var hún ein stærsta ástæðan fyrir því að KR tókst að sigra leikhlutann 15-17. En úrslit leiksins löngu ráðin og enduðu leikar 69-52 fyrir heimastúlkur.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Kristinn Bergmann
Mynd: Axel Finnur

Fréttir
- Auglýsing -