spot_img
HomeFréttirHaukar magnaðir í seinni hálfleik

Haukar magnaðir í seinni hálfleik

Haukar hafa tryggt sér farseðilinn inn í undanúrslit Domino´s-deildar karla eftir öruggan 96-79 sigur á Keflavík í oddaviðureign liðanna í Schenkerhöllinni. Hnífjan og skemmtilegur fyrri hálfleikur á boðstólunum þennan Skírdaginn en síðari hálfleikur var eign Hauka og þá einkum og sér í lagi þriðji leikhluti þar sem Hafnfirðingar fóru hreinlega hamförum.

Alex Francis opnaði leikinn fyrir Hauka með körfu og villu að auki og viti menn, þessi krafthúsakappi setti niður vítaskotið og rauðir byrjuðu 3-0. Haukur Óskarsson stimplaði sig svo strax inn á eftir Francis með þriggja stiga körfu en stigataflan sýndi 8-0 áður en Keflvíkingar komust á blað með þriggja stiga körfu frá Vali Orra Valssyni.

Keflvíkingar voru eitthvað bráðir á sér á upphafsmínútunum en þeir Damon Johnson og Gunnar Einarsson fengu báðir tvær villur á þremur fyrstu mínútum leiksins. Francis lék við hvurn sinn fingur og gerði 13 af fyrstu 18 stigum Hauka í leiknum sem komust í 18-12. 

Davon Usher tók við sér undir lok fyrsta hluta, gerði sex stig í röð og minnkaði muninn í 22-20 og þá kom Davíð Páll Hermannsson sterkur inn af Keflavíkurbekknum með sex stig og 4 fráköst en Davíð jafnaði leikinn 26-26 þegar hann tippaði boltanum ofaní um leið og fyrsta leikhluta lauk. Fjörug og flott byrjun á oddaleiknum. 

Haukur Óskarsson sleppti tveimur þristum lausum í upphafi annars leikhluta og kom Haukum í 32-29 en Andrés Kristleifsson tók þá við keflinu fyrir Keflvíkinga og skoraði níu stig í öðrum leikhluta. Guðmundur Jónsson kom svo snöggtum í kjölsogið á Andrési og hélt uppi stemmningunni fyrir gestina. 

Varnarleikur Keflavíkur var flottur framan af öðrum leikhluta, allur leikurinn mun harðari og gestirnir þrifust betur í því umhverfi. Kári Jónsson varð fyrstur Hauka utan Hauks til að koma niður þrist er hann minnkaði muninn í 40-41 en Guðmundur Jónsson svaraði í nákvæmlega sömu mynt og 40-44 og kappinn var ekki hættur því hann kom Keflavík í 44-50. 

Undir lok fyrri hálfleiks tóku þeir Kristinn Marinósson og Gunnar Einarsson dans. Gunnar má eiga það að hann spennti gildruna, nuddaði sig vel á Kristinn svo ganga varð á milli þeirra. Keflavík átti boltann og eftir að hafa æst Kristnn vel upp setti Gunnar þrist yfir hausamótin á honum og kom Keflavík í 48-53 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Reynslan að hrista vel upp í ungviðinu. 

Alex Francis var atkvæðamestur Hauka í hálfleik með 17 stig og 6 fráköst en Guðmundur Jónsson var með 11 stig í liði Keflavíkur, Davon 10 og Andrés 9. 

Skotnýting liðanna í hálfleik
Haukar
: Tveggja 41% – þriggja 45% og víti 73% 
Keflavík: Tveggja 63% – þriggja 41% og víti 50% 

Meðbyrinn sem Keflavík þrammaði með inn í leikhlé varð að mótvindi í þriðja leikhluta þar sem Haukar fóru einfaldlega hamförum! Fyrstu stigin komu reyndar ekki fyrr en eftir tveggja mínútna leik en næstu sex mínútur notuðu Haukar hreinlega til þess að rúlla yfir Keflvíkinga!

Haukar tóku 10-0 sprett áður en Valur Orri skoraði fyrstu stig Keflavíkur og af vítalínunni. Francis héldu engin bönd og Kristnn Marinósson kom Hukum í 68-55 með þrist og Kári bætti um betur og breytti stöðunni í 71-55 og tvær mínútur eftir af leikhlutanum. Keflvíkingar vissu einfaldlega ekki hvaðan á sig stóð veðrið en náðu loks smá sönsum þegar Davíð Páll, Andrés og Arnar Freyr rúlluðu aftur inn á parketið. Keflavík náði að vinna síðustu tvær mínúturnar 2-8 og halda stöðunni í 73-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en þetta reyndist 25-10 skaði þessi þriðji leikhluti í bókum Keflavíkur. 

Þrátt fyrir að Alex Francis væri kominn á fjórar villur í upphafi fjórða leikhluta hjá Haukum þá hafði það ekki teljandi áhrif. Haukar juku bara muninn millum liðanna, Haukur Óskarsson setti auðvitað þrist, Kári Jóns líka og svona gekk þetta. Allur meðbyr var Haukamegin sem kláruðu verkefnið af miklu öryggi 96-79. 

Lykil-menn leiksins: Alex Francis og Haukur Óskarsson

Emil Barja daðraði við þrennuna með 10 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar hjá Haukum en þeir Alex Francis 30/8/5 og Haukur Óskarsson 23/7/2 voru bestir Hafnfirðinga þennan daginn. Kári Jónsson átti einnig sterka spretti sem og Kristinn Marinósson. Stigahæstur í liði Keflavíkur var Davon Usher með 16 stig og 9 fráköst og Andrés Kristleifsson átti virkilega góða spretti með 15 stig og 5 fráköst. Þá var Davíð Páll Hermannsson í góðum gír með 12 stig og 9 fráköst en kanónur á borð við Damon, Gunnar, Arnar og Þröst hefðu þurft að vera öflugri þennan daginn. Guðmundur Jónsson átti líka bjarta kafla en þriðji leikhlutinn var Keflvíkingum einfaldlega of dýr. 

Tölfræði leiksins

Mynd/ Axel Finnur – Kári Jónsson sækir að vörn Keflavíkur í oddaleiknum.

Fréttir
- Auglýsing -