spot_img
HomeFréttirHaukar lögðu grunn að sigri í öðrum leikhluta

Haukar lögðu grunn að sigri í öðrum leikhluta

Haukar og Valur áttust við á Ásvöllum í dag í Domino's deild kvenna. Haukastúlkur voru fyrir leikinn á toppi deildarinnar ásamt Snæfell, með 18 stig eftir 10 leiki en Valsstúlkur sátu í 5. sæti með 10 stig. 

Valsstúlkur mættu vel stemmdar til leiks og byrjuðu af krafti bæði í vörn og sókn. Dagbjört Samúelsdóttir og Karisma Chapman skoruðu fyrstu stig leiksins og komu Valsstúlkum í 0-4 áður en Auður Íris svaraði fyrir Haukastúlkur með þriggja stiga körfu. Valur leiddi leikinn framan af fyrsta leikhluta en þristur frá Helenu kom Haukum yfir í fyrsta skipti þegar um fimm mínútur voru liðnar af honum. Dagbjört Dögg jafnaði metin fyrir Valsstúlkur þegar mínúta var eftir af fyrsta leikhluta en körfur frá Dýrfinnu og Evu Margréti á síðustu mínútunni færðu Haukum aftur yfirhöndina. Dagbjört Dögg setti niður tvö stig fyrir gestina áður en flautan gall og staðan eftir fyrsta leikhluta 23-20 fyrir Haukum.

Annar leikhluti var eign Hauka, þær lokuðu vel á Valsstúlkur í sókninni sem skoruðu einungis þrjú stig á fyrstu fimm mínútum hans. Ari Gunnarsson tók leikhlé í stöðunni 33-23 en það virtist ekki hafa tilætluð áhrif á leik Valsstúlkna strax eftir leikhléið og lítið gekk upp í sóknarleik þeirra. Sólrún Inga setti niður tvo þrista fyrir Hauka og Helena bætti við tveimur stigum eftir að hafa stolið boltanum, staðan orðin 41-23 fyrir heimakonur. Leikur Vals hresstist í seinni hluta annars leikhluta, bæði sóknar- og varnarlega og settu þær 7 stig á móti 8 stigum Hauka. Heimakonur leiddu því með 19 stigum í hálfleik, 49-30.

Sylvía Rún fór mikinn fyrir Hauka í byrjun seinni hálfleiks og skoraði sjö stig á upphafsmínútunum. Valsstúlkum gekk illa að brjóta á bak aftur stífa vörn Hauka sem skilaði sér í sex töpuðum boltum Vals á fyrstu mínútum seinni hálfleiks. Haukar náðu 31 stigs forystu með körfu frá Pálínu þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, staðan orðin 63-32 fyrir Haukastúlkum. Líkt og í öðrum leikhluta small spil Vals betur saman í síðari hluta leikhlutans og náðu þær mest að minnka mun Hauka niður í 24 stig. Haukar leiddu í lok leikhlutans með 28 stigum, 76-48.   

Jóhanna Björk jók forskot Hauka aftur í 31 stig í upphafi fjórða leikhluta. Þá hrukku Valsstúlkur í gang, þær nýttu skot sín betur en í leikhlutunum tveimur á undan og töpuðum boltum fækkaði til muna. 31 stigs forskot Hauka í byrjun leikhlutans var þó of stór munur til að vinna upp og Haukar sigldu heim öruggum 16 stiga sigri, 93-77. 

Hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir með 26 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar og því einungis einni stoðsendingu frá tvöfaldri þrennu. Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 12 stig fyrir Hauka og Sólrún Inga Gísladóttir setti 11 stig og tók 6 fráköst.  

Karisma Chapman skilaði 29 stigum, 15 fráköstum og 8 stoðsendingum fyrir Val, Guðbjörg Sverrisdóttir bætti við 14 stigum og Hallveig Jónsdóttir setti 13 stig. Þá kom Dagbjört Dögg inn af bekknum og skoraði 10 stig. 

Haukar halda því í jólafrí á toppi Domino's deildar kvenna með 20 stig eftir 11 leiki en fast á hæla þeirra kemur Snæfell með 18 stig. Valur siglir lygnan sjó um miðbik deildarinnar með 10 stig eftir 11 leiki, líkt og Keflavíkurstúlkur.  

Haukar 93 – 77 Valur (23-20, 26-10, 27-18, 17-29)

Stigaskor Hauka: Helena Sverrisdóttir 26 stig/12 fráköst/9 stoðsendingar, Eva Margrét Kristjánsdóttir 12 stig, Sólrún Inga Gísladóttir 11 stig/6 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 8 stig, Sylvía Rún Hálfdánardóttir 8 stig, Dýrfinna Arnardóttir 7 stig, Þóra Kristín Jónsdóttir 6 stig/9 stoðsendingar, Pálína María Gunnlaugsdóttir 6 stig/5 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 5 stig, María Lind Sigurðardóttir 4 stig, Rósa Björk Pétursdóttir 0 stig, Hanna Þráinsdóttir 0 stig. 

Stigaskor Vals: Karisma Chapman 29 stig/15 fráköst/8 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 14 stig, Hallveig Jónsdóttir 13 stig/5 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 10 stig, Dagbjört Samúelsdóttir 6 stig, Margrét Ósk Einarsdóttir 3 stig, Bergþóra Holton Tómasdóttir 1 stig, Jónína Þórdís Karlsdóttir 1 stig, Regína Ösp Guðmundsdóttir 0 stig, Helga Þórsdóttir 0 stig.   

Myndasafn (Axel Finnur)

Mynd: Sólrún Inga Gísladóttir kom inn af bekknum og tók 6 fráköst fyrir Hauka og skoraði 11 stig, þar af 8 stig í öðrum leikhluta. (Mynd Axel Finnur)
   

Fréttir
- Auglýsing -