Í gær, mánudaginn 21. mars, var alþjóðlegi Downs dagurinn eða World Down Syndrome Day. Haukar mættu þá til Þorlákshafnar og jöfnuðu einvígið gegn Þór 1-1. Það gerðu liðsmenn Hauka í ósamstæðum sokkum til stuðnings við daginn alþjóðlega.
Gærdagurinn var í ellefta sinn sem haldið er upp á daginn alþjóðlega. Á heimasíðu alþjóðadagsins fyrir fólk með Downs heilkenni segir að hvatt sé til að vekja athygli á deginum og á því hvað það sé að vera með Downs heilkenni og hvernig fólk með heilkennið skipi veigamikinn sess í lífum okkar og samfélagi.
Meðfylgjandi mynd með fréttinni tók Guðmundur Karl Sigurdórsson hjá sunnlenska.is en þar sést hvernig Kristinn Marinósson er í ósamstæðum sokkum eins og aðrir félagar sínir í liði Hauka í gær.
*Uppfært: Því má bæta við fréttina að Haukar óskuðu í gær eftir undanþágu hjá KKÍ til þess að leika í ósamstæðum sokkum til að vekja athygli á deginum. Reglum samkvæmt eiga menn að vera í samstæðum sokkum í körfuknattleik en undanþágan var góðfúslega veitt í gær af hálfu sambandsins sem sjálft vinnur með málefnið #HeForShe í úrslitakeppninni.
Nánar er hægt að lesa sér til um Downs-heilkennið hjá félagi áhugafólks um Downs-heilkenni.



