spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar kvenna, Helena Sverrisdóttir MVP

Haukar Íslandsmeistarar kvenna, Helena Sverrisdóttir MVP

Það var mögnuð stemming á Ásvöllum í kvöld þegar að Haukar og Valur mættust í oddaleik úrslitarimmu úrvalsdeildar kvenna. Haukar höfðu ekki unnið Íslandsmeistaratitil síðan árið 2009. Guðbjörg Sverrisdóttir var þá í Haukaliðinu en hún mætti í kvöld sem fyrirliði Vals, en Valur hafði aldrei áður unnið Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta. Helena Sverrisdóttir var ekki með Haukum í seinsta Íslandsmeistaratitli þeirra en hafði verið með í tveimur öðrum árin 2006 og 2007. Það var allavega ljóst að önnur systirin yrði Íslandsmeistari í kvöld. Liðin höfðu unnið báða heimaleikina sína fyrir þennan leik og Haukar stóðu því mögulega betur að vígi.

 

Bæði lið byrjuðu vel og munurinn milli þeirra framan af var aldrei meiri en 2-3 körfur. Leikmenn Hauka og Vals voru fastar fyrir enda var minnstu mistökum í vörn eða sókn refsað með skoraðari körfu hjá andstæðingunum. Dýrfinna Arnardóttir, sem hafði verið úti vegna höfuðmeiðsla frá því fyrr á tímabilinu, var í hóp hjá Haukum og hún var ansi seig á köflum í fyrsta leiknum sínum til baka. Það var ansi lítið sem að skildi liðin að í fyrri hálfleiknum enda var aðeins 2 stiga munur eftir 20 mínútur, 35-37, Val í vil.

 

Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik náðu Haukar að byrja seinni hálfleikinn miklu betur og skoruðu fyrstu 14 stigin í þriðja leikhlutanun áður en Valur gat komið til baka og minnkað muninn með sínu eigin áhlaupi. Það dugði þó ekki alveg til og gestirnir frá Hlíðarenda voru að elta Hauka það sem eftir lifði leiks. Þrátt fyrir frækna endurkomu og baráttu hjá Valsstúlkum á lokakaflanum gátu þær ekki stigið skrefið til fulls og töpuðu eftir að hafa fengið gott tækifæri til að jafna leikinn og senda í framlengingu í seinustu sókn leiksins.

 

Haukar unnu því fjórða Íslandsmeistaratitilinn sinn með 74-70 sigri á Val.

 

Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest hjá Haukum með 21 stig, 19 fráköst og 10 stoðsendingar, fjórða þrefalda tvennan hennar í þessari úrslitarimmu, og Whitney Frazier skoraði 20 stig og tók 9 fráköst. Aaliyah Whiteside og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir hlóðu báðar í tvöfalda tvennu hjá Val (Aaliyah með 28 stig og 10 fráköst og Elín Sóley með 20 stig og 10 fráköst) en Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 10 stig á seinustu fjórum mínútum leiksins (16 stig í öllum leiknum) og náði næstum því að senda leikinn í framlengingu á lokasekúndunum með þriggja stiga skoti sem geigaði.

 

Kjarninn

Heimasigur, heimasigur, heimasigur, heimasigur og að lokum; HEIMASIGUR. Heimavöllurinn var þrælöflugur í þessari úrslitaséríu og Haukar gerðu vel að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarréttinn alla úrslitakeppnina. Valsstúlkur voru mjög góðar þetta árið og fengu framlag frá flestum leikmönnum sínum á tímabilinu en í kvöld vantaði þær meira framlag frá þeim Hallveigu Jónsdóttur og Bergþóru Holton Tómasdóttur. Þær hafa vanalega skorað ca. 20 stig að meðaltali í leik en skiluðu aðein 6 í þessum úrslitaleik. Þá skipti litlu þó að Elín Sóley ætti annan frábæran leik, en hún, Aaliyah og Guðbjörg settu liðið upp á herðarnar sínar í kvöld. Það dugði því miður ekki til og svo fór sem fór.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Liðin stóðu jöfn í mörgum tölfræðiþáttum, þ.a. fráköstum (42/43), villum (17/17) og stoðsendingum (16/17). Skotnýtingin var hins vegar frekar ólík, en Haukar hittu úr 10 af 34 þristum (29%) á meðan að Valur tók aðeins 18 þrista og hitti aðeins úr fjórum þeirra (22%). Valur hittu betur úr tveggja stiga skotum sínum og settu þar 22 af 46 skotum (47%) á móti aðeins 16 af 36 hjá Haukum (44%). 

 

Það sem líklegast skildi liðin mest að og skilaði Haukum sigri voru tapaðir og stolnir boltar. Valur tapaði 18 boltum og þ.a. stálu Haukar 13 þeirra. Þetta skilaði sér í að Haukar skoruðu 21 stig úr töpuðum boltum andstæðinganna gegn aðeins 12 slíkum stigum Vals megin. 

 

 

Mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar

Helena Sverrisdóttir var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar og var vel að því komin, enda er hún líklega einn besti leikmaður á Íslandi fyrr og síðar. Hún lauk leik í kvöld með 21 stig, 19 fráköst, 10 stoðsendingar og 36 framlagsstig.

 

Í allri úrslitakeppninni skoraði Helena að meðaltali 20.8 stig, tók 12.5 fráköst, gaf 10.0 stoðsendingar og var með 32.5 framlagsstig að meðaltali. Hún var því að meðaltali með þrefalda tvennu gegnum alla séríuna sem verður að teljast ansi magnaður árangur.

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasöfn:
 

Viðtöl eftir leikinn:


 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson og Davíð Eldur

Myndasafn / Bjarni Antonsson
Fréttir
- Auglýsing -