Haukakonur eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki kvenna eftir 66-59 sigur gegn Keflavík í úrslitaviðureign liðanna í Smáranum. Rannveig Ólafsdóttir var valin besti maður leiksins en hún gerði 15 stig fyrir Hauka ásamt því að stela 9 boltum, taka 5 fráköst og gefa 4 stoðsendingar.
Hafnfirðingar virkuðu grimmari aðilinn á upphafsmínútum leiksins en Haukar léku í dag án Rögnu Margrétar Brynjarsdóttur sem er fingurbrotin. Keflvíkingar fóru óvarlega með boltann í upphafi leiks og töpuðu honum fjórum sinnum upp í hendur Hauka á fyrstu þremur mínútum leiksins. Jafnt var þó á flestum tölum uns Keflvíkingar stungu af úr stöðunni 8-8 í 8-20 þar sem Keflavíkurvörnin fór mikinn. Dagbjörg Samúelsdóttir átti þó lokaorðið í leikhlutanum er hún setti niður flautukörfu í teigskoti en það voru fyrstu stig Hauka í fyrsta leikhluta á tæplega 5 mínútna kafla.
Dagbjört Samúelsdóttir fékk snemma í öðrum leikhluta sína þriðju villu í liði Hauka og sást lítið eftir það í fyrri hálfleik. Svæðisvörn Hafnfirðinga náði að hægja aðeins á Keflavík en sóknir Hauka voru áfram stirðar gegn sterkri Keflavíkurvörn. Keflvíkingar höfðu frumkvæðið út annan leikhluta og leiddu því 28-33 í hálfleik en Haukar unnu samt annan leikhluta 18-13 og nokkur batnaðarmerki voru á Hafnfirðingum á þeirra spilamennsku síðan í fyrsta leikhluta.
Eva Rós Guðmundsdóttir var atkvæðamest hjá Keflavík í hálfleik með 13 stig og 15 fráköst en í liði Hauka var Rannveig Ólafsdóttir komin með 6 stig. Þess má geta að engin þriggja stiga karfa var skoruð í fyrri hálfleik og brenndu liðin samanlagt af þeim 11 tilraunum sem þau áttu fyrstu 20 mínútur leiksins.
Haukar komu grimmar inn í síðari hálfleikinn og voru fljótar að brenna upp forskot Keflvíkinga. Á endanum komust Haukar yfir þegar fyrsta þriggja stiga karfa leiksins leit dagsins ljós en þar var Dagbjört Samúelsdóttir að verki og kom Haukum í 36-35. Næstu mínútur skiptust liðin á forystunni en það voru Haukar sem leiddu fyrir fjórða leikhluta 42-38 og unnu því þriðja leikhluta 14-5 með fantagóðri vörn.
Fyrstu mínútur í fjórða leikhluta voru í járnum en hægt og bítandi sigu Haukar framúr og það geta þær þakkað sterkum varnarleik en Keflavík tapaði 44 boltum í leiknum og það er of mikið þegar í úrslitaleik er komið. Segja má að Bryndís Hanna Hreinsdóttir hafi rekið smiðshöggið fyrir Hauka þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Bryndís mætti þá með mikilvægan þrist og breytti stöðunni í 61-53 Haukum í vil. Lokatölur reyndust svo vera 66-59 Haukum í vil.
Rannveig Ólafsdóttir var stigahæst í liði Hauka með 15 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 9 stolna bolta en henni næst voru þær Árnína Lena Rúnarsdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir báðar með 12 stig en Dagbjört var líka með 9 fráköst.
Eva Rós Guðmundsdóttir átti stóran dag í liði Keflavíkur, gerði 19 stig, tók 24 fráköst og gaf 4 stoðsendingar en næst henni var Ingunn Embla Kristínardóttir með 9 stig.
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]




