spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla

Haukar Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla

 
Haukar eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla eftir 76-79 spennusigur gegn Njarðvík í úrslitaleik liðanna í Smáranum í Kópavogi. Örn Sigurðarson var valinn maður leiksins með 29 stig og 15 fráköst fyrir Hauka en Njarðvíkingar leiddu allan leikinn þangað til á lokasprettinum þegar Haukar börðu fram sigurinn af miklu harðfylgi.
Hjörtur Hrafn Einarsson var mættur fyrir allan peninginn í liði Njarðvíkinga og skoraði 14 fyrstu stig liðsins. Njarðvíkingar komust í 5-0 en Haukar voru fljótir að jafna í 5-5 en grænir höfðu þó frumkvæðið þar sem varnir beggja liða voru þéttar og skotnýting hjá báðum í kjölfarið nokkuð döpur. Njarðvíkingar leiddu 21-15 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Örn Sigurðarson miðherji Hauka fékk snemma tvær villur og hélt á bekkinn.
 
Valur Orri Valsson kom seint inn í fyrsta leikhluta í liði Njarðvíkinga en hann lét strax til sín taka og var áfram heitur í öðrum leikhluta. Örn Sigurðarson miðherji Hauka fékk sína þriðju villu en það virtist aðeins kveikja í kappanum sem spilaði betur og betur með hverri mínútu í öðrum leikhluta.
 

Njarðvíkingar voru ávallt skrefi á undan og Valur Orri kom græknum í 35-24 með þriggja stiga körfu og Njarðvíkingar komust skjótt í 40-26 áður en Haukar fóru á stjá. Örn Sigurðarson setti tóninn og gerði 6 stig í röð fyrir Hauka sem náðu síðan 9-0 áhlaupi og minnkuðu muninn í 40-35.

 
Það voru ekki nægilega margir Haukamenn sem fylgdu fordæminu sem Örn setti og því leiddu Njarðvíkingar í hálfleik 50-39 eftir þriggja stiga körfu frá Vali Orra Valssyni þegar skammt var til leiksloka.
 
Hjörtur Hrafn Einarsson var með 22 stig og 6 fráköst í Njarðvíkurliðinu í hálfleik en Valur Orri var kominn með 13 stig á tæpum 9 mínútum. Hjá Haukum var Örn Sigurðarson með 15 stig og 5 fráköst.
 
Snemma í síðari hálfleik hélt Valur Orri Valsson áfram að drita yfir Hafnfirðinga sem af óskiljanlegum ástæðum skyldu Val eftir í gríð og erg til þess að taka opin og þægileg skot. Njarðvíkingar komust í 60-47 eftir einn dreifbýlisþrist frá Val og kappinn þarna búinn að setja niður 4 af 5 þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum.
 
Hægt og sígandi fóru Haukar að nálgast enda hertu þeir róðurinn í vörninni og Steinar Aronsson kom með sterka körfu fyrir rauða þegar mínúta var eftir af þriðja leikhluta og minnkaði muninn í 64-56. Haukar áttu svo lokaorðið í leikhlutanum en Njarðvíkingar leiddu 64-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta þar sem Haukar unnu þriðja leikhluta 14-19.
 
Fjórði leikhluti var í lás, hver karfa vó þungt og liðin léku vörn af hörku. Njarðvíkingar leiddu 70-63 eftir rúma þrjár og hálfa mínútu í fjórða leikhluta en Haukar önduðu ofan í hálsmálið á grænum. Rúnar Ingi Erlingsson setti mikilvægan þrist fyrir Njarðvíkinga og breytti stöðunni í 73-66 Njarðvík í vil en Hafnfirðingar gáfust ekki upp.
 
Emil Barja fékk svo sína fimmtu villu í liði Hauka og varð frá að víkja en Emil átti flottan dag með Hafnfirðingum, 18 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar. Erfiður tími fyrir Hauka að missa Emil af velli en þeir gáfust ekki upp og í garð gengu svakalegar lokasekúndur.
 
Njarðvíkingar leiddu 75-74 þegar 35 sekúndur voru til leiksloka. Haukar brutu á Vali Orra Valssyni sem brenndi af báðum vítaskotum sínum. Haukar héldu í sókn og þar komst Helgi Björn Einarsson upp að körfunni og skoraði þegar 18 sekúndur voru eftir og breytti stöðunni í 75-76 Haukum í vil. Brotið var á Helga sem fékk vítaskot að auki en hann brenndi af vítinu en Haukar náðu samt sóknarfrákastinu. Arnar Hólm fór þá upp að Njarðvíkurkörfunni en grænir brutu á honum þegar 12 sekúndur voru til leiksloka. Arnar setti fyrra vítið en brenndi af því síðara og staðan 75-77 fyrir Hauka þegar Njarðvíkingar héldu í sókn.
 
Hjörtur Hrafn Einarsson henti sér upp í þriggja stiga skot fyrir Njarðvíkinga og Örn Sigurðarson braut á Hirti að mati dómara leiksins og því fékk Hjörtur þrjú skot. Hjörtur hitti aðeins úr einu skoti af þremur og minnkaði því muninn aðeins í 76-77. Njarðvíkingar brutu strax á Erni Sigurðarsyni sem tók varnarfrákastið og Örn fór yfir og jarðaði bæði vítin, staðan 76-79 fyrir Hauka. Njarðvíkingar tóku leikhlé og fengu svo boltann á miðjum vellinum.
 
Óli Ragnar Alexandersson tók innkastið fyrir Njarðvíkinga, hann fann Val Orra sem náði ágætu skoti til þess að jafna leikinn en skotið geigaði og Haukar fögnuðu sigri vel og innilega, lokatölur 76-79.
 
Örn Sigurðarson var stigahæstur í liði Hauka með 29 stig og 15 fráköst. Næstur honum var Emil Barja með 18 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Hjörtur Hrafn Einarsson atkvæðamestur með 27 stig og 12 fráköst og Valur Orri Valsson gerði 21 stig og tók 4 fráköst.
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -