spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar í MB 11 ára (uppfært)

Haukar Íslandsmeistarar í MB 11 ára (uppfært)

8:00

{mosimage}

Þetta var góð helgi hjá Ívari og lærisveinum hans

Í dag urðu Haukar Íslandsmeistarar í MB 11 ára (1996 og yngri). Haukarnir sigruðu í þremur af fjórum leikjum sínum í mótinu eins og ÍBV, en fengu fyrsta sætið vegna sigurs í innbyrðisleik. Haukarnir sigruðu einning í þessum aldursflokki í fyrra. Mótið var jafnt og skemmtilegt og það er ljóst að 1996 árgangurinn er nokkuð efnilegur.

Lokastaðan varð þessi:

Haukar             3 sigrar og eitt tap
ÍBV                 3 sigrar og eitt tap
KR                  2 sigrar og 2 töp

Stjarnan           1 sigur og 3 töp
Grindavík        1 sigur og 3 töp

Hér kemur smá umfjöllun um alla leikina:

Leikur Hauka og UMFG var mjög spennandi. Haukar voru yfir eftir eina lotu 13-12 og í hálfleik 22-20. Spennan hélt áfram í þriðju lotunni og enn voru Haukar yfir, 28-26.  UMFG náði að jafna tvívegis í tölunum 30 og 32. Þegar lítið var eftir voru Haukarnir yfir 38-37, síðan lokuðu þeir vörninni og skorðu þrjár síðustu körfurnar og unnu 43-37.  Kristján Sverrirson (bróðir Helenu Sv.) átti stórleik og var með 20 stig, þar af 9 stig í röð í síðustu lotunni þegar leikurinn var í járnum. Það hjálpaði Haukunum að fá  framlag frá fleiri í sókninni en vanalega. Betri varnarleikur hjá UMFG hefði gefið þeim sigur í þessum mikilvæga byrjunarleik mótsins. Stigahæðstur UMFG var Jón Axel Guðmundsson (Bragason) með 10 stig.

Næsti leikur var á milli KR og Stjörnunar. KR var yfir efstu fyrstu lotuna 10-8. KR lék ágætlega í annarri lotunni á meðan Stjörunumenn misnotuðu 7 víti, Staðan í hálfleik 18-13 fyrir KR. Stjörnumenn spiluðu frábæran bolta fyrstu fimm mín. í þriðju lotunni og skorðu þeir Helgi og Arnar Steinn 13 stig saman á meðan KR setti aðeins tvö stig. KR sneri síðan leiknum með 10 stiga syrpu og voru síðan yfir 32-30 í lok lotunnar. Spennan hélt áfram í fjórðu lotunni og leikurinn var jafn í tölunni 36-36. Þá kom góður kafli hjá KR og þeir komust yfir 46-39. Stjarnan setti síðan niður fjögur víti í restina og leikurinn endaði 46-43 fyrir KR. Vilhjálmur Jensson (KR) átti sinn besta sóknarleik í vetur og setti niður 13 stig. Helgi Björnsson (Stjörnunni) var sprækur í sókninni og var með 18 stig. Arnar Steinn félagi hans var í strangri gæslu KR-inga en náði að setja niður 14 stig. Stjarnan misnotaði 19 víti í þessum leik og var það þeim dýrkeypt.

Þriðji leikur mótsins var á milli Hauka og ÍBV (þetta reyndist síðan vera úrslitaleikurinn). Fyrsta lotan var í rauninni einvígi á milli Kristjáns Haukamanns og Arons Valtýssonar (ÍBV).  Kristján var með 8 stig og Aron var með 11. Haukar voru yfir eftir lotuna, 13-14. Spennan hélt áfram í annarri lotu og var staðan í hálfleik jöfn 25-25. Enn hélt spennan áfram og í lok þriðju lotu voru Haukar yfir 35-36. Haukar leiddu alla fjórðu lotuna og var munurinn 2-8 stig. Eyjamenn voru duglegir á lokasprettinum en það dugði ekki. Haukar unnu 54-50. Þríeykið Hjálmar (10 stig alls), Kristján (22 stig) og Kári (5 stig) léku mjög vel í síðustu lotunni fyrir Hauka. Galdramaðurinn Aron var með 27 stig í leiknum fyrir ÍBV og Valtýr S. Birgisson var með 10  stig og mörg fráköst.

Næsti leikur var á milli Stjörnunar og UMFG. Bæði liðin náðu sér ekki á strik í fyrstu leikjunum sínum. Fyrsta lotan var mjög góð sóknarlega hjá báðum liðum. Hinrik Guðbjartsson (UMFG) var í banastuði og skoraði 8 stig í lotunni. Arnar Steinn (Stjörnunni) stjórnaði sóknarleik sinna manna vel og var með margar stoðsendingar, flestar þeirra lentu í höndum Magnúsar Guðbrandssonar sem átti frábæra lotu og skoraði 12 stig. UMFG var yfir 20-18 eftir fyrstu lotuna. Það hægði aðeins á liðunum í annarri lotu og í lok hennar var UMFG yfir 30-27.  Spennan hélt áfram í þriðju lotunni og um miðbik hennar var Grindavík yfir 37-35, þá kom Stjarnan með góða syrpu og voru yfir í lok lotunnar, 39-43. Stjarnan lék vel í fjórðu lotunni og stjórnaði henni og vann góðan sigur 58-53. Hinrik var með 15 stig fyrir UMFG. Magnús G. var með 17 fyrir Stjörnuna, Helgi 13 og Arnar Steinn 14.

Galdramaðurinn Aron V. átti góða fyrstu lotu fyrir ÍBV á móti KR og var með 10 stig. Friðrik Þjálfi (KR) var einnig sprækur og var með 8 stig. Aron V. hvíldi í annarri lotu og þá ætluðu KR-ingar að nýta sér það. KR byrjaði með látum og komust í 24-19.  Í þeirri lotu sýndi ÍBV að liðið er lið, og breytt leiktaktík þjálfarans og góður leikur Valtýs og Sigurðar B. kom þeim inn í leikinn aftur og jafnt var í hálfleik 24-24. Liðin léku ágæta þriðju lotu og í lok hennar var ÍBV yfir 36-35. KR byrjaði vel í fjórðu lotunni og komst yfir 38-37. Síðan sýndi ÍBV að þeir eru með líka með varnarlið og skelltu í lás og leyfði KR-ingunum aðeins að skora eina körfu í lotunni og nokkur víti. ÍBV sigraði síðan 47-40. Þessi 7 stiga munur átti síðan af hafa áhrif á atburðarrás sunnudagsins. Aron var með 20 stig fyrir ÍBV, Sigurður 10 og Valtýr 11 stig auk fjölda frákasta.

Fyrsti leikur sunnudagsins var á milli Stjörnunar og Hauka. Haukarnir léku best allra liða á laugardeginum og þeir héldu því áfram í þessum leik. Fyrsta lotan var einvígi á milli Arnar Steins (8 stig) og Kristjáns (13). Í lok lotunnar var staðan 15-12 fyrir Hauka.  Í annari lotunni vaknaði Hjámar Haukamaður til lífsins og leiddi lið sitt áfram. Haukar voru yfir í hálfleik 29-23. Haukar völtuðu yfir Stjörnumenn í þriðju lotunni og komust 23 stig yfir. Stjarnan klóraði aðeins í bakkann í síðustu lotunni og Haukar unnu síðan 59-37. Kristján var með 23 stig og Hjálmar var með 16. Arnar Steinn var með 11 stig fyrir Stjörnuna.

ÍBV-galdramaðurinn Aron stóð sig vel í fyrstu lotunni á móti Grindavík og setti niður 11 stig. Í lotunni lék Jón Axel vel og var með 5 stig. Í lok lotunnar var ÍBV yfir 15-10.  Staðan í hálfleik var 25-20 fyrir ÍBV. Grindavík minnkaði muninn í þriðju lotunni og í lok hennar var munurinn aðeins tvö stig, 33-31. Í lokalotunni tóku þríeykið Aron, Sigurður og Valtýr öll völd á vellinum og skoruðu til samans 15 stig og tryggðu liðinu sínu góðan sigur 50-40. Hjá ÍBV var Aron var með 21 stig, Valtýr með 11 og Sigurður með 8. Stigahæðstur hjá UMFG var Jón Axel með 13 stig og Magnús var með 8.

Næsti leikur var á milli Hauka og KR. Sigur hefði gulltryggt Haukum Íslandsmeistaratitilinn. KR sigur og/eða stór KR sigur hefði getað gefið þeim möguleika á titli. KR komst yfir 10-4. Þá losnaði aðeins um Kristján og kom hann sínu liði inn í leikinn aftur. KR byrjaði aðra lotuna mjög vel og komust yfir 26-18. Haukar setti síðan niður síðustu þrjú stigin og staðan í hálfleik var 26-21 fyrir KR. Vesturbæingar héldu áfram að leika góða vörn og voru  yfir 41-32 í lok þriðju lotu. Haukarnir voru sterkir í byrjun síðustu lotunnar og minnkuðu muninn í fjögur stig. KR tók kipp og komst síðan sjö sig yfir en náðu ekki fylgja því eftir og unnu leikinn aðeins með 4 stiga mun 47-43. Högni Fjalarson (KR) sýndi sitt rétta andlit í þessum leik og var með 16 stig. Kristján var með enn einn stórleikinn fyrir Hauka og var með 18 stig, Hjálmar var með 12. Í þessum leik voru gerð mistök á ritaraborði sem kostaði KR tvö stig og voru þau mistök Vesturbæingum dýrkeypt.

Eftir þennan leik þá var staðan í innbyrðisleikjum Hauka, ÍBV og KR eftirfarandi: ÍBV með 3 stig í plús, Haukar með 0 stig og KR með 3 stig í mínum.

Fjórði leikur dagsins var á milli ÍBV og Stjörnunar. Sigur hjá ÍBV og hagstæð úrslit í síðasta leiknum hefðu tryggt þeim Íslandsmeistaratitil. Stjörnusigur og hagstæð úrslit í síðasta leik hefði tryggt KR sigur í mótinu. Ef þessir möguleikar hefðu ekki ræst þá voru Haukar Íslandsmeistarar. ÍBV léku eins og meistarar í fyrstu lotunni og komust yfir 20-8. Þeir voru yfir í hálfleik 32-12 og í lok þeirra þriðju 43-34. Leikurinn endaði með sigri ÍBV 58-49. Galdramaðurinn Aron var með 34 stig (18 í fyrstu lotunni). Arnar Steinn var með 28 stig fyrir Stjörnuna og Helgi var með 13.

Þessi úrslit gerðu það að verkum að möguleikar KR voru út úr myndinni og síðasti leikur mótsins á milli KR og UMFG myndi ráða því hvort Haukar myndu halda titili sínum í þessum flokki eða hvort bikarinn færi til Eyja.

UMFG hafði tapað þremur fyrstu leikjum sínum á þessu móti. Guðmundur Bragason þjálfari UMFG náði upp góðri stemmningu í sínu liði og voru þeir vel tilbúnir. Sama verður ekki sagt um leikmenn KR. Helgin hafði ekki farið eins og þeir ætluðu sér og nokkuð spennufall átti sér stað hjá liðinu þegar ÍBV klárðaði sinn síðsta leik með stæl. Grindavík lék sér að KR í þessum leik og voru yfir 16-6 eftir fyrstu lotuna. Grindavík var yfir í hálfleik 34-14 og í lok þriðju var hún 48-23. Leikurinn endaði með stórsigri UMFG, 66-37. UMFG lék mjög vel í  þessum og þessi sigur setti Hauka í fyrsta sæti.

Þetta var að mörgu leyti frábær úrslitakeppni. Félögin sem áttu fulltrúa í úrslitunum í þessum flokki hafa lagt mjög mikla vinnu í þessi 1996 lið. Flestir þessir leikmenn hafa æft lengi og haft afbragðsþjálfara. Þeir þjálfarar sem voru að þjálfa um helgina eru allir mjög góðir og þeir voru einnig með reynda aðstoðarmenn. Strákarnir í þessum flokki léku mjög vel þessa helgi og þeir sýndu að þetta er mjög spennandi árgangur. KKÍ dómarnir stóðu sig ágætlega þótt þeir gerðu sín mistök eins og leikmenn og þjálfarar.

Umgjörð mótsins hefði getað verið betri. Leikið var þvert í íþróttahúsi KR. Aðstaða fyrir áhorfendur var ekki nægilega góð, áhorfendur eru of nálægt varamannabekkjum og ritaraborði. Starfsmenn á ritaraborði voru í flestum leikjunum ungir og þar voru gerð mistök í tveimur eða þremur leikjum sem höfðu áhrif.

Karfan.is óskar Haukum og hinum geðþekka og góða þjálfara Ívari Ásgrímssyni til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn um helgina. Liðið var sívaxandi í vetur og toppaði á réttum tíma. Einnig óskar karfan.is ÍBV og Birni Einarssyni þjálfara til hamingju með sitt góða lið og árangur. Þetta er trúlega í fyrsta skipti sem ÍBV nær verðlaunasæti í Íslandsmóti yngri flokka í körfu.

. 

Mynd: www.haukar-karfa.is

Fréttir
- Auglýsing -