Haukar urðu Íslandsmeistarar í Drengjaflokki eftir stórskemmtilegan úrslitaleik gegn KR sem fram fór í Dalhúsum í dag. KR hafði forystuna framan af leik en frábær endasprettur Hauka tryggði þeim góðan sigur.
Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:
Fyrir leikinn:
KR endaði í öðru sæti deildarinnar en Fjölnir í því fjórða. Liðin höfðu mæst þvisvar sinnum áður í deildinni og hafði KR sigur í tveimur leikjum af þeim og það nokkuð örugglega. Einnig sló KR Hauka úr leik í undanúrslitum bikarkeppninnar sem KR svo vann.
Gangur leiksins:
Haukar byrjuðu upphafs mínúturnar betur en KR fór að hitta frábærlega er leið á fyrsta leikhlutann. KR komst mest í 10 stiga forystu rétt fyrir hálfleikinn og voru mun sterkari aðilinn.
Vörn KR var fín í byrjun seinni hálfleiks og hittu þeir vel á sama tíma. Í þriðja leikhluta var frammistaða KR mun meira sannfærandi. Haukar hinsvegar settu upp svæðisvörn í byrjun fjórða leikhluta sem KR gekk illa að sækja á. Haukum tókst að brúa bilið all rækilega og komast yfir. Haukar náðu 16-0 áhlaupi í fjórða leikhluta og komst liðið þá átta stiga forystu.
Við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem KR náði muninum mest niður í eitt stig. Haukar settu þá stór víti og þessi hræðilega byrjun KR í loka leikhlutanum var þeim um megn að lokum. Haukar unnu góðan 88-94 sigur á KR og eru Íslandsmeistarar í Drengjaflokki 2017.
Hetjan:
Nafnarnir í Haukum voru saman gríðarlega sterkir fyrir liðið. Hilmar Smári Henningsson var þó fremstur meðal jafningja en hann endaði með lítil 38 stig, tíu fráköst og átta stoðsendingar. Hann er með 52% skotnýtingu úr 25 skotum og var með fimm þriggja stiga körfur, magnaður leikur. Hilmar Pétursson var með 27 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar og var einnig sterkur. Hjá KR var Sigvaldi Eggertsson stigahæstur með 26 stig.
Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)
Viðtal við Hilmar Smára Henningsson leikmann Hauka:
Umfjöllun, viðtal og myndir / Ólafur Þór Jónsson