spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar í drengjaflokki

Haukar Íslandsmeistarar í drengjaflokki

Haukar eru Íslandsmeistarar í drengjaflokki eftir sigur á Tindastól í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Smáranum í Kópavogi. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik sigu Haukar hægt en örugglega fram úr Tindastól sem skutu að utan án afláts en lentu á degi þar sem ekkert vildi niður. Kári Jónsson var magnaður í liði Hauka og var valinn besti maður úrslitaleiksins með 33 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Lokatölur voru 53-71 fyrir Hauka þar sem 65 þriggja stiga skot voru send á loft!
 
 
Fyrir leikinn höfðu Haukar og Tindastóll mæst tvívegis á Íslandsmótinu og unnið sinn hvorn útileikinn. Von var á spennu en þetta hófst allt í hinu mesta stressi, liðin gátu vart keypt körfu, Haukar brenndu af 11 fyrstu skotunum sínum og boltum var grýtt í faðm andstæðinganna eða einfaldlega út af vellinum. Það bráði þó af mönnum og Pétur Rúnar tók af skarið fyrir Tindastól, fyrst með tvö varin skot og svo tveir þristar en Jón Ólafur dró vagninn fyrir Hauka. Stólarnir leiddu 13-9 eftir fyrsta leikhluta þar sem Pétur Rúnar var kominn með 10 stig hjá Tindastól og Jón Ólafur 9 stig í liði Hauka.
 
Heldur hitnaði undir Haukum í öðrum leikhluta, Kári Jónsson hrökk í gang og gerði 16 stig á 10 mínútum og Haukar opnuðu leikhlutann með 11-0 dembu og komust í 13-20. Stólarnir minnkuðu muninn í 15-22 og voru það þeirra fyrstu stig í öðrum leikhluta eftir fjögurra mínútna leik. Jón Ólafur kom Haukum svo í 22-33 með þriggja stiga körfu en Tindastólsmenn áttu fína rispu undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í 27-33 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Í upphafi síðari hálfleiks kom Kári Jónsson Haukum í 29-41 með glæsilegum snúnin sem lauk með „fade-away“ stökkskoti, ekki amalegt að eiga svona laglega hreyfingu í sínu vopnabúri á þessum aldri. Að sama skapi hittu Tindastólsmenn ekkert! Eftir 30 mínútna leik voru Stólarnir 2 af 27 í þriggja stiga skotum og áður en til þessarar 7% skotnýtingar kæmi hefði maður ætlað að menn skyldu ráðast af meiri krafti að körfunni en Stólarnir skutu linnulaust en án árangur. Haukar leiddu 37-52 fyrir fyrir fjórða og síðasta leikhluta og ef sigurinn yrði þeirra máttu þeir þakka sterkum varnarleik sínum fyrir vikið og auðvitað Kára Jónssyni sem á tæpum 20 mínútum hafði splæst í 29 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar!
 
Stólarnir létu sér ekki segjast, feimnir við að ráðast grimmt á Haukavörnina og fannst því þægilegra að halda áfram að senda þrista á loft. Fyrir vikið fór munurinn fljótt upp í 20 stig eða 46-66 þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka. Haukar kláruðu svo dæmið af öryggi og lönduðu 53-71 sigri og fögnuðu vel og innilega Íslandsmeistaratitli sínum.
 
Hjá Haukum voru Kristján Leifur, Kári og Jón Ólafur sterkir en í liði Tindastóls lá mikið á herðum Péturs Rúnars sem skilaði af sér 22 stigum og 14 fráköstum.
 
 
Kári Jónsson besti maður úrslitaleiksins ásamt Bryndísi Gunnlaugsdóttur stjórnarmanni hjá KKÍ og sveitarstjórnarframbjóðanda Framsóknarflokksins í Grindavík.  
Fréttir
- Auglýsing -