spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar í 9. flokki karla

Haukar Íslandsmeistarar í 9. flokki karla

 
Kári Jónsson var hetja Hauka í dag þegar Hafnfirðingar urðu Íslandsmeistarar í 9. flokki karla eftir spennusigur á Stjörnunni. Lokatölur voru 49-48 Haukum í vil en Stjarnan leiddi allan leikinn en Haukar reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu loks með flautuþrist frá Kára Jónssyni og fögnuðu rauðir vel og innilega þegar lokaflautan gall. Kári var einnig útnefndur besti maður leiksins með 13 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
Garðbæingar byrjuðu mun betur í leiknum, mættu með svæðisvörn sem Haukum gekk illa að brjót á bak aftur og bláir leiddu 8-16 að loknum fyrsta leikhluta. Varnarleikurinn var í fyrirrúmi en Stjarnan hafði enn frumkvæðið og leiddi 24-21 í hálfleik.
 
Staðan að loknum þriðja leikhluta var 38-29 Stjörnuna í vil en í fjórða leikhluta sigu Haukar á og minnkuðu muninn í 43-40 þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Haukar settu svo niður risavaxinn þrist er þeir jöfnuðu 43-43.
 
Helgi Rúnar Björnsson kom Stjörnunni í 48-46 þegar um 45 sekúndur voru til leiksloka. Þegar um 11 sekúndur voru til leiksloka reyndu Haukar erfiðan þrist sem geigaði og brutu þeir svo á Stjörnunni þegar um 5 sekúndur voru til leiksloka. Garðbæingar brenndu af báðum vítunum og Haukar héldu í sókn, Kári Jónsson fékk boltann og reyndi erfitt þriggja stiga skot töluvert fyrir utan sem fór niður um leið og lokaflautið gall! Ótrúleg flautukarfa og magnaður karaktersigur hjá Haukum sem voru að elta Stjörnuna allan leikinn og náðu að brjóta ísinn um leið og lokaflautan gall.
 
Kári Jónsson var eins og fyrr segir valinn besti maður leiksins með 13 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Kristján Leifur Sverrisson var svo með 12 stig og 9 fráköst. Hjá Stjörnunni var Helgi Rúnar Björnsson með 18 stig og 8 fráköst og Daði Lár Jónsson var með 14 stig og 10 fráköst.

Myndasafn frá leiknum

 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -