spot_img
HomeFréttirHaukar Íslandsmeistarar: Helena kvaddi með stórleik

Haukar Íslandsmeistarar: Helena kvaddi með stórleik

21:00

{mosimage}

Keflavíkurkonum tókst ekki að knýja fram oddaleik í dag þegar þær fengu Hauka í

heimsókn í Sláturhúsið. Gestirnir úr Hafnarfirði unnu 77-88 og einvígið alls 3-1. Keflavík spilaði góðan bolta í sveiflukenndum leik en slakur kafli í endann þar sem þær virtust ekki geta náð frákasti varð liðinu að falli og Haukar því Íslandsmeistarar 2007. Hjá Keflavík skoruðu TaKesha Watson og María Ben Erlingsdóttir 17 stig og hjá Haukum var Ifeoma Okonkwo stigahæst með 32 stig og Helena Sverrisdóttir skoraði 27.

 

Afrek Hauka verður seint leikið eftir en þær eru titilhafar allra íslenskra körfuboltatitla og eru með yngsta liðið í deildinni og yngsta þjálfarann. Frábær árangur hjá Haukakonum.

 

Leikurinn byrjaði fjörlega og voru bæði lið í sóknarhug. Helena Sverrisdóttir skoraði

7 fyrstu stig Hauka og þegar aðeins 1 mínúta og 39 sekúndur voru liðnar af leiknum var staðan 4-9 Haukum í vil. Keflavík minnkaði muninn í 2 stig, 9-11, þegar Birna Valgarðsdóttir skoraði fallega þriggja-stiga körfu. Í kjölfarið kom góður leikkafli hjá Haukum þar sem þær skoruðu 10 stig gegn aðeins 2 frá heimastúlkum og staðan því 11-22. Jón Halldór, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé og aðeins 5 mínútur liðnar af leiknum.

 

Eitthvað virtist ræðan hjá Jóni Halldóri virka því Keflavík skoraði næstu 7 stig leiksins eftir leikhléið og minnkuðu muninn í 18-21. TaKesha setti þriggja stiga körfu og María Ben tvö sniðskot. Haukar náðu síðan að keyra muninn aðeins upp og staðan var 22-30 Haukum í vil eftir 1. leikhluta.

{mosimage}

 

Keflavík náði að snúa leiknum sér í vil í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik 44-42. Rannveig

Randversdóttir skoraði fyrstu 5 stig Keflavíkur í leikhlutanum og var funheit. Haukar náðu að svara með góðri körfu frá Unni Töru Jónsdóttur. Í stöðunni 27-36 kom frábær kafli hjá Keflavík en þær skoruðu 17 stig gegn aðeins 2 frá gestunum og leiddu 44-38. Ingibjörg Vilbergsdóttir jafnaði leikinn í 38-38 með þriggja-stiga körfu og svo kom Svava Stefánsdóttir þeim í  41-38 með þriggja-stiga körfu. Eftir það skoraði Ingibjörg Vilbergsdóttir aðra þriggja-stiga og staðan því 44-38. Haukar skoruðu síðustu 4 stig hálfleiksins og heimastúlkur fóru með 2 stig inn í hálfleikshlé.

 

Þriðji leikhluti var mjög sveiflukenndur hjá báðum liðum. Keflavík skoraði fyrstu körfuna og komst 4 stigum yfir, 46-42. Helena Sverrisdóttir skoraði næstu 5 stigin og Haukar komnir yfir, 46-47. Liðin skiptust aðeins á körfum og í stöðunni 48-53 var dæmd óíþróttamannsleg villa á Svövu Stefánsdóttur þegar hún hrindir Sigrúnu Ámundadóttur í sniðskoti í hraðaupphlaupi. Í stað þess að láta brotið slá sig út af laginu skoruðu Haukar næstu 7 stig leiksins og náðu 12 stiga forystu 48-60 og virtust þær vera með leikinn í hendi sér. En þá kom frábær leikkafli hjá Keflavík þar sem þær skora 13 stig í röð og komust yfir 61-60. Helena Sverrisdóttir lokaði leikhlutanum með þriggja-stiga körfu og Haukar leiddu með 2 stigum, 61-63, þegar lokaleihlutinn hófst.

 

Keflavík byrjaði leikhlutann sterkt en þá stal TaKesha Watson boltanum og skoraði úr einföldu sniðskoti og jafnaði leikinn 63-63. Haukar skoruðu næstu 6 stig leiksins áður en Keflavík náði að svara en þá komu tvær körfur frá þeim og staðan 67-69. Keflavík náði að minnka muninn í 1 stig, 70-71, þegar Svava Stefánsdóttir skoraði og fékk víti að auki sem hún nýtti. Nær komst Keflavík ekki að sinni. Haukar keyrðu upp muninn þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum og unnu með 11 stigum, 77-88.

{mosimage}

 

Haukar unnu frákastabaráttuna og skipti hún sköpum í dag. Á lokamínútum leiksins voru Haukar í sókn allt að í heila mínútu en þær náðu alltaf sóknarfrákastinu eftir að þær geiguðu úr skotunum sínum. Haukar tóku alls 17 sóknarfráköst gegn aðeins 4 frá Keflavík og þær unnu fráköstin 22-42.

 

Keflavík átti frábæra spretti og náðu að komast yfir tvisvar eftir frábæran kafla. Þær náðu bara ekki að láta kné fylgja kviði og leyfðu Haukum ávallt að komast aftur inní leikinn.

 

Hjá Keflavík skoraði TaKesha Watsons og María Ben Erlingsdóttir 17 stig og var TaKesha einnig með 7 stolna bolta, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.

 

Hjá Haukum var Ifeoma frábær en hún var með 32 stig og mörg þeirra komu eftir gegnumbrot. Hún tók einnig 15 fráköst. Helena Sverrisdóttir var einnig frábær en hún skoraði 27 stig ásamt því að taka 12 fráköst og kvaddi því Haukakonur og íslenska boltann með glæsilegri tvennu en næstu árin verður Helena við nám í Bandaríkjunum þar sem hún mun einnig leika körfubolta og verður sannkallaður sjónarsviptir af því að missa Helenu úr boltanum.

 

www.vf.is

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -