spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaHaukar í riðlakeppni EuroCup!

Haukar í riðlakeppni EuroCup!

Haukar mættu Uniao Sportiva í seinni leik liðanna í EuroCup á vegum FIBA Europe í kvöld, en leikið var á Azoreyjum. Haukar unnu fyrri leik liðanna með 5 stigum, 81-76, og voru því í kjörstöðu til að tryggja sér sæti í riðlakeppni EuroCup, með annað hvort sigri eða þá tapi með minna en fimm stigum.

Leikurinn byrjaði hins vegar á versta veg fyrir Hafnfirðinga og höfðu hinar portúgölsku þrettán stiga forystu eftir fyrsta fjórðung, 28-15, og var munurinn níu stig í hálfleik, 48-39, heimakonum í vil.

Í þriðja leikhluta sprakk Haukaliðið hins vegar út, spilaði frábæra vörn og minnkaði muninn í eitt stig fyrir lokafjórðunginn, 58-57. Í lokafjórðungnum náðu Haukar svo að halda muninum undir fimm stigum, líkt og þörf var á. Svo fór að Uniao Sportiva vann leikinn með tveimur stigum, 81-79, en Haukar komast áfram í riðlakeppni EuroCup með betri samanlagðan árangur í leikjunum tveimur. Glæsilegt afrek hjá Hafnfirðingum!

Helena Sverrisdóttir var mögnuð í kvöld með 32 stig, og fór algerlega fyrir Haukaliðinu.

Karfan mun að sjálfsögðu flytja fréttir af því þegar ljóst verður hverjir verða andstæðingar Hauka í riðlakeppni EuroCup.

Fréttir
- Auglýsing -