Pétur Ingvarsson var dreginn út úr búningsklefa Hauka í Vodafonehöllinni kampavínsblautur og sæll í kvöld til að ræða við fréttaritara Karfan.is. Sætið í Iceland Express deildinni var tryggt með flottum sigri Hauka á liði Vals, en Haukar þurftu þó að hafa töluvert meira fyrir hlutunum heldur en í seinasta leik á Ásvöllum. ,,Ég sagði þeim fyrir þennan leik að það þarf að bæta við sig að minnsta kosti 10 stigum til þess að vinna á útivelli og við bjuggumst alveg við því að þeir myndu hitta betur, þeir myndu fá nokkra dóma sem myndu fall með þeim og að það myndi skoppa ofaní hjá þeim boltinn. En við bara gáfumst ekki upp og við kannski unnum þetta aðallega varnarlega í seinni hálfleik.”
Haukar fagna því í kvöld uppskeru þessa tímabils sem þeir hafa beðið eftir í nokkurn tíma. ,,Við erum nátturulega búnir að eyða þremur árum í fyrstu deild og ég veit að Valur er búinn að eyða lengri tíma þannig að þetta var, fyrir annan hvorn aðilann, gríðarlega mikilvægt. Fyrir okkur byrjar undirbúningurinn fyrir nýjar áskoranir bara strax í dag.”
Pétur sagði eftir fyrri leikinn að hann þyrfti að finna einhverja lausn til þess að vinna Valsmenn á heimavelli sem Haukar höfðu ekki gert í mörg ár. Hver var lykillinn að sigrinum í kvöld? ,,Ég sagði við þá fyrir leikinn að þetta myndi ekki snúast um hæfileika heldur vilja til þess að vinna og vilja til þess að leggja sig fram í 40 mínútur. Það er greinilega það sem við höfum ekki gert í þessi 13 ár, lagt okkur nógu mikið fram. Þeir lögðu sig 100% fram núna og þess vegna held ég að við höfum unnið þetta núna.”
Næsta ár er því mjög spennandi fyrir Hauka en er eitthvað ákveðið með næst ár? ,,Nei ekki neitt, ekki neitt. (innskt. Verður þú áfram?) Það er alveg hægt að segja upp samningi með eins dags fyrirvara á alla vegu þannig að þetta er ekki tryggasta starf í heimi. Ég veit ekkert hvernig þetta verður. Við njótum þessa tímabils, það gekk ágætlega. Næsta tímabil, það verður væntanlega byrjað að undirbúa það fljótlega,” sagði Pétur að lokum.
Sævar Haraldsson var sammála því að Haukar hefðu þurft að hafa meira fyrir sigrinum í kvöld heldur en í fyrri leik liðana á sunnudaginn. ,,Töluvert meira, töluvert meira,” sagði þreyttur Sævar. ,,Bæði lið voru bara ekkert að fara í sumarfrí í kvöld. Annað liðið var með bakið upp við vegg og tilbúnir að gefa allt í þetta. Það eru erfiðir svoleiðis leikir.” Sævar spilaði með Haukum þegar þeir spiluðu í úrvalsdeild seinast og hlakkaði til að takast á við verkefni næsta árs. ,,Það er bara stemming, við erum búnir að vera þarna niðri í hvað, þrjú fjögur ár. Við eigum klárlega að vera þarna í úrvalsdeild og það er bara kominn tími á það aftur. Bara glæsilegt.”
Gísli Ólafsson



