VODAFONEHÖLLIN. Það var ansi hreint magnaður leikur sem Valur og Haukar buðu uppá í kvöld þrátt fyrir að hann hefði ekki litið út fyrir að vera stefna í það í hálfleik. En leikurinn var hnífjafn í fjórða leikhluta þar sem Haukar voru með 3 stiga forskot þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Guðbjörg Sverrisdóttir átti þá magnaðan þrist til að jafna leikinn með aðeins 2.5 sekúndur eftir.
Haukar voru síðan sterkari í framlengingunni, þökk sé góðri frammistöðu hjá Sylvíu Rún Hálfdanardóttur og hinni óstöðvandi Lele Hardy, og unnu þær 84-85.
Mjög jafn var með liðunum framan af í fyrsta leikhluta þar sem Dagbjört Samúelsdóttir fór fyrir Haukunum með 9 stig og Joanna Harden fyrir Val með 8 stig. Það var þó Guðbjörg Sverrisdóttir sem stal senunni í lokin á leikhlutanum þar sem hún skoraði tvær góður körfur í röð fyrir Val og tryggði þeim 5 stiga forystu, 25-20.
Haukar byrjuðu sterkt og jöfnuðu leikinn í 25-25 á örskömmum tíma. Þar var þess valdandi að Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, tók leikhlé og las ansi hressilega yfir sínum stúlkum. Það hafði engin áhrif á liðið því Haukar skoruðu 19 stig gegn engum áður en Val tókst loksins að svara, eftir að hafa leikið í 7,5 mínútur án þess að skora. Þá kveiknaði smá bál í Valsstúlkum sem komu með 7-0 kafla. En Haukar voru með algjöra yfirburði og unnu leikhlutann 23-8 þar sem Valur réð ekkert við Lele Hardy sem var með 11 stig í leikhlutanum. Staðan í hálfleik því 33-43.
Hálfsleiksræða Ágústar virkaði greinilega mun betur en leikhlésræðan því Valsstúlkur komu með hausinn rétt skrúfaðan á í þriðja leikhluta. En hann var mjög jafn framan af eða þangað til Valur átti flottan endasprett er þær yfirspiluðu Hauka 9-2 til að enda leikhlutann og laga stöðuna í aðeins 3 stig, 49-52.
Í fjórða leikhluta var það Guðbjörg Sverrisdóttir sem bar höfuð og herðar yfir allar aðrar en hún kom Val yfir 53-52 í byrjun leikhlutans og hamraði svo þrist í andlitið á Haukunum stuttu síðar. Haukum gekk ekkert að skora undir körfunni og Valsstúlkur komnar í gírinn og náðu 4 stiga forystu. Leikurinn var algjörlega í járnum á þessum tímapunkti og sama hvað Haukar gerðu alltaf svaraði Guðbjörg, en hún skorað 13 stig í leikhlutanum og kórónaði hún magnaða frammistöðu með því að setja þrist úr horninu til að jafna leikinn, 74-74, með 2,5 sekúndur eftir.
Smá ruglingur skapaðist hjá liðunum þar sem stigataflan gaf til kynna að þristur Guðbjargar hefði verið sigurþristur (74-73) en svo var þó ekki þar sem ekki var búið að skrá vítaskot Auðar Írisar Ólafsdóttur í sókninni á undan og leikurinn því jafn. En í framlengingunni voru Haukar sterkari þar sem Sylvía Rún Hálfdanardóttir fór fyrir liðinu með 7 stig. Joanna Harden hélt Val inn í leiknum en það dugði ekki til og eflaust haft mikið að segja að Valur voru búnar að missa bæði Rögnu Margréti Brynjarsdóttur og Kristrúnu Sigurjónsdóttur útaf með 5 villur í fjórða leikhluta. Haukar stóð því uppi sem sigurvegari, 84-85, eftir ansi hreint spennandi og skemmtilegan seinni hálfleik.
Mynd úr myndasafni – Axel Finnur/ Það er ekki hægt að stöðva þessa tölfræðivél