spot_img
HomeFréttirHaukar hámuðu ÍR-inga í sig

Haukar hámuðu ÍR-inga í sig

Haukar fengu hina óútreiknanlegu ÍR-inga í heimsókn í 6. umferð deildarinnar í kvöld. Liðin svamla hlið við hlið í súpu fjölmargra liða með 6 stig. Haukar hafa verið undarlega bitlausir að undanförnu og töpuðu bæði í deild og bikar gegn Þór Þ. í síðustu tveimur leikjum. ÍR-ingar settu aftur á móti landsmet í undarlegheitum með því að sigra KR-inga í deildinni en tapa svo gegn Blikum í bikarkeppninni!

Spádómskúlan: Kúlan hafði þetta að segja um leikinn: ,,Andskotann á ég að spá um úrslit hjá liði sem veit ekkert í hvaða deild það er? En ég hendi heimasigri áetta, 92-78.“

Byrjunarlið:  

Haukar: Flen, Kári, Hjálmar, Robinson, Haukur

ÍR: Sæsi, Evan, Collin, Boyanov, Trausti

Gangur leiksins

ÍR-liðið var eins og púsluspil þar sem vantar stærsta púslið í miðjuna. Ísafjarðartröllið gæti mögulega smellpassað í eyðuna. Heimamenn þurftu ekkert endilega að hitta því þeir tóku bara sóknarfrákastið. Þrátt fyrir allt héldu ÍR-ingar í við Hauka til að byrja með en þeir rauðu leiddu 29-22 eftir einn.

Gestirnir settu fyrstu 5 stig annars leikhluta sem gaf falsvonir um spennandi leik. ÍR-liðið reyndi að loka teignum betur en það lagði á borð fyrir Hauk Óskars og fleiri Haukamenn fyrir utan þriggja stiga línuna. Heimamenn voru fljótt komnir með 10 stiga forskot og það var sæmileg framganga ÍR-inga sóknarlega sem gerði það að verkum að munurinn var aðeins 13 stig í hálfleik, 59-46.

Haukar voru frekar fljótir að loka þessum leik í upphafi þriðja leikhluta. Þegar 3 mínútur voru liðnar af honum var staðan 66-50 eftir smekklegan Kára-þrist. Ef einhver efaðist þarna um úrslit leiksins var engin ástæða til að efast að leikhlutanum loknum. Staðan var þá 83-58 og réttast að spyrja Óskar Ófeig hvenær ÍR-ingar fengu síðast svo mikið af stigum á sig í þremur leikhlutum. Fjórða leikhluta þarf ekki að lýsa í mörgum orðum, líktist í stuttu máli þriggja stiga skotæfingu. Lokatölur 101-81.

Menn leiksins

Haukaliðið virkaði sem ein heild í kvöld, 5 leikmenn skoruðu 13+ stig. Robinson var með 20 stig og 11 fráköst svona til að svala tölfræðiþyrstum.

Evan og Collin voru bestu menn gestanna, Evan með 22 stig og 8 stoðsendingar, Collin 23 stig og 9 fráköst.

Kjarninn

Haukar sýndu klærnar í þessum leik og fóru með gesti sína eins og bráð. Hópurinn er afar sterkur, Breki Gylfa styrkir hópinn og svo eiga Haukar Kidda M. líka inni. Liðið hlýtur að stefna hátt í vetur og ef pressan brýtur það ekki geta Haukar alveg komið til tals sem meistaraefni. 

ÍR-liðið olli undirrituðum og nokkuð örugglega fleirum miklum vonbrigðum. Hvernig í ósköpunum gat þetta lið sigrað KR-inga? Samkvæmt þessu eru Haukar mikið betri en KR, en  reyndar ekkert endilega betri en Blikar! Fáránlegt, en sem betur fer þarf að spila leikina og það getur allt  gerst. Ljóst er að ÍR-liðið getur spilað betur en í kvöld.

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -