spot_img
HomeFréttirHaukar gleyptu Grindvíkinga í heilu lagi

Haukar gleyptu Grindvíkinga í heilu lagi

Haukategund ein gleypir bráð sína í heilu lagi í náttúrunni, séu það aðrir fuglar eru þeir afhöfðaðir í fyrstu og svo gleyptir. Sé bráðin stærri gerir haukurinn árás með klónum og tætir svo bráðina í sig, sitt af hvoru tagi átti við niðurstöðu oddaleiks Hauka og Grindavíkur í kvöld. Haukar bæði tættu í sundur og gleyptu Grindavík í sig. Lokatölur 74-39.

Grindvíkingar afrekuðu aðeins eitt stig í fyrsta leikhluta í kvöld og voru með 11 stig í hálfleik gegn hástemmdum Haukakonum. Hálfleiksræðan skilaði ögn fleiri stigum en Haukum hafði tekist að fá Grindvíkinga til að efast um eigið ágæti eftir þennan fyrri hálfleik og gerðu því fljótt út um leikinn. Vissulega vonbrigði að oddaleikurinn hafi ekki orðið meiri rimma en þetta en að sama skapi hörku meðbyr sem Haukar taka með sér inn í úrslitin gegn Snæfell. 

 

Deildarmeistarar Hauka fengu fljúgandi start í Schenkerhöllinni með 8-0 skvettu og gestirnir héldu inn í leikhlé…sem gerði nákvæmlega ekkert fyrir þær! Sylvía Hálfdanardóttir var uppi á tánum og var fljótt komin með 4 stig og 3 fráköst. Grindvíkingar, sama hvað þeir reyndu, gátu ekki keypt körfu í fyrsta leikhluta. Eftir því sem lengra leið á leikhlutann fóru tvær grímur að renna á viðstadda, ætlaði Grindavík ekkert að skora! Jeanne Lois Figeroa Sicat bjargaði fyrsta og eina stigi leikhlutans fyrir Grindavík þegar hann var við það að klárast og staðan 12-1 fyrir Hauka og að halda jafn sterku liði og Haukum í 12 stigum í fyrsta leikhluta er til lítils ef þú gerir aðeins eitt stig! 

 

Skotnýting liðanna eftir fyrsta leikhluta

Haukar: Tveggja 38% – þriggja 0% (0-3) og víti 0% (0-0)

Grindavík: 0% (0-13) – þriggja 0% (0-7) og víti 50% (1-2)

 

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir opnaði annan leikhluta með þrist og minnkaði muninn í 12-4 og héldu þá margir að mesta gæsahúðin væri farin af reynsluboltunum í Grindavík en annað kom á daginn. Haukar heimiluðu ekki nein upphlaup hjá gestunum, unnu leikhlutann 20-10 og leiddu 32-11 í hálfleik! 

 

Skotnýting liðanna í hálfleik

Haukar: Tveggja 43% – þriggja 0% (0-7) og víti 67% (8-12)

Grindavík: Tveggja 12% – þriggja 7% (1-14) og víti 50% (2-4) 

(Ekki er ósennilegt að Ingunn og Sigrún séu hugsi á myndinni yfir frammistöðu Grindavíkur í kvöld)

Aftur opnuðu gestirnir vel í byrjun þriðja leikhluta og nú var mögulega komið að því að gera þetta að leik að nýju, 5-0 byrjun og síðan ekki söguna meir! Haukar svöruðu þessu rétt eins og litla upphlaupinu í öðrum leikhluta og gerðu í raun algerlega út um leikinn með fléttu þar sem Sylvía setur þrist, 46-20, Helena bætti við öðrum 49-20 og strax í næstu sókn Grindvíkinga komst Helena inn í sendingu Grindavíkur sem brutu svo á henni í þriggja stiga skoti. Helena sallaði inn fimm stigum þarna á innan við 10 sekúndum og staðan orðin 51-20 og allar vonir Grindavíkur um að gera þetta að leik voru endanlega horfnar. Staðan 55-27 eftir þriðja leikhluta. 

 

Skotnýting liðanna eftir þriðja leikhluta

Haukar: Tveggja 45% – þriggja 18% og víti 65% (13-20)

Grindavík: Tveggja 21% – þriggja 11% og víti 58% (11-25)

 

Snemma í fjórða mættu þær Shanna og Jóhanna Björk með þrista fyrir Hauka, 58-27 og 63-31 og þá fengu sleggjurnar í liði Hauka heiðursskiptingar og inn komu yngri og efnilegir leikmenn sem létu sitt ekki heldur eftir liggja því allir liðsmenn Hauka skoruðu í leiknum! Lokatölur 74-39. 

 

Grindvíkingar mega naga sig í handarbökin enda komust gular í 2-0 með athyglisverðri frammistöðu og allt útlit fyrir að Haukar væru á leið í sumarfrí. Haukar fá mikið hrós fyrir að snúa einvíginu sér í vil enda ekki heiglum hent að vinna þrjá leiki í röð við þessar aðstæður. Grindvíkingar hefðu þurft að hafa meiri trú á sínum gjörðum í kvöld, skotprósentan ber þess vitni, 23% í teignum og 9% í þriggja stiga skotum. Reynslumiklir leikmenn voru að missa sniðskot í gríð og erg og á köflum átakanlegt að fylgjast með vantrú þeirra á eigin skotum. Stundum fellur þetta svona, Grindvíkingar halda því í sumarfrí með bikarsilfur og 3.-4. sæti á Íslandsmótinu en Haukar halda áfram inn í úrslitaseríuna. 

Myndasafn – Bára Dröfn

 

Tölfræði leiksins 

 

Haukar-Grindavík 74-39 (12-1, 20-10, 23-16, 19-12)

 

Haukar: Helena Sverrisdóttir 24/13 fráköst/4 varin skot, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 12/14 fráköst, Shanna Dacanay 9, Pálína María Gunnlaugsdóttir 8/4 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 4/4 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 4/5 fráköst, Þóra Kristín Jónsdóttir 3, Dýrfinna Arnardóttir 2, Hanna Þráinsdóttir 2, Rósa Björk Pétursdóttir 2, Sólrún Inga Gísladóttir 2, María Lind Sigurðardóttir 2. 

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 14/8 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 5, Sigrún Elfa Ágústsdóttir 4, Petrúnella Skúladóttir 4, Hrund Skúladóttir 3, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 3/4 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 2, Jeanne Lois Figeroa Sicat 1, Íris Sverrisdóttir 0, Ingunn Embla Kristínardóttir 0/5 fráköst, Helga Einarsdóttir 0/5 fráköst.  

 

Viðureign: 3-2

Fréttir
- Auglýsing -