spot_img
HomeFréttirHaukar geta tryggt sig í úrslitin komandi föstudag - Lögðu Keflavík örugglega...

Haukar geta tryggt sig í úrslitin komandi föstudag – Lögðu Keflavík örugglega í kvöld

Haukar lögðu Keflavík í kvöld í Blue Höllinni í öðrum leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild kvenna, 68-80. Haukar því komnar í þægilega 2-0 stöðu í einvíginu og geta tryggt sig áfram í úrslitin með sigri komandi föstudag heima í Ólafssal.

Gangur leiks

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu leik kvöldsins mun betur en heimakonur. Leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 13-20. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þær svo að bæta aðeins í og fara með þægilega 12 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 29-41.

Í upphafi seinni hálfleiksins virðast Keflavíkurkonur ná vopnum sínum að einhverju leyti, en ná þó lítið að vinna niður forskotið sem er 11 stig fyrir lokaleikhlutann, 47-58. Í fjórða leikhlutanum gerðu gestirnir úr Hafnarfirði svo vel í að verjast áhlaupum heimakvenna, sigla að lokum nokkuð öruggum 12 stiga sigri í höfn, 68-80.

Kjarninn

Úrslit kvöldsins eru að miklu leyti í takt við önnur úrslit Keflavíkur síðustu vikur og mánuði, en í apríl unnu þær aðeins einn leik og í maí hafa þær einnig unnið aðeins einn leik. Á þessu tímabili hafa þær hinsvegar tapað sjö leikjum. Haukar hafa hinsvegar verið að fara í hina áttina. Síðan að Sara Rún Hinriksdóttir kom til liðsins í byrjun mars hefur liðið unnið tíu leiki og tapað aðeins tveimur. Þetta er að sjálfsögðu önnur keppni, þessi úrslitakeppni, þar sem allt á að geta gerst. Ólíklegt verður þó að teljast að Keflavík nái að vinna næstu þrjá leiki og komast í úrslitin, bæði úr þessu og með tilliti til gengis liðsins og mótherjans.

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar unnu frákastabaráttu kvöldsins með 47 gegn 39 fráköstum heimakvenna. Þrír leikmenn Hauka tóku 10 fráköst eða fleiri í leiknum, Þóra, Alyesha og Eva, á meðan að frákastahæst Keflvíkinga var Daniela með 7.

Atkvæðamestar

Alyesha Lovett var besti í liði Hauka í dag, skilaði 18 stigum, 10 fráköstum og 7 stoðsendingum. Fyrir Keflavík var það Daniela Morillo sem dró vagninn með 23 stigum, 7 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er komandi föstudag 21. maí kl. 20:15 í Ólafssal í Hafnarfirði.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -