spot_img
HomeBikarkeppniHaukar eru meistarar meistaranna 2021

Haukar eru meistarar meistaranna 2021

Haukar lögðu Val rétt í þessu í leik meistara meistaranna í Origo Höllinni í Reykjavík, 58-62. Leikurinn er árlegur góðgerðaleikur þar sem að Íslandsmeistarar og bikarmeistarar etja kappi. Íslandsmeistarar á síðasta tímabili voru Valskonur á meðan að Haukar unnu bikartitilinn.

Gangur leiks

Gestirnir úr Hafnafirði byrjuðu leik dagsins mun betur. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 10 stigum, 12-22. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimakonur þó aðeins áttum, en munurinn enn 6 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 29-35.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná Haukakonur svo að bæta aðeins við forystu sína. Eru aftur komnar 10 stigum á undan að þremur leikhlutum loknum, 43-53. Fjórða leikhlutann hefja Valskonur af krafti og ná að jafna leikinn aftur á upphafsmínútum hans. Lengra komast þær þó ekki með það áhlaup og er leikurinn nokkuð jafn á lokamínútunum. Að lokum ná Haukar þó að vera skrefinu á undan og sigra að lokum með 4 stigum, 58-62.

Það munar um minna

Færa má rök fyrir að bestu leikmenn hvors liðs hafi vantað í kvöld. Í lið Vals vantaði landsliðsmiðherjann Hildi Björgu Kjartansdóttur á meðan að hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir fjarri góðu gamni.

Tölfræðin lýgur ekki

Þriggja stiga nýting Vals í leiknum var ekkert sérstök, 14%, en þær settu niður 3 af 21 úr djúpinu. Öllu betri var hún hjá Haukum, sem settu niður 11 af 31 og voru með 35% nýtingu.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest fyrir Hauka í leiknum var Lovísa Björt Henningsdóttir með 23 stig og 7 fráköst. Þá bætti Haiden Denise Palmer við 10 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Fyrir heimakonur í Val var það Ameryst Alston sem dró vagninn með 25 stigum, 11 fráköstum og 4 stoðsendingum og þá var Dagbjört Dögg Karlsdóttir næst stigahæst með 10 stig og 3 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -