Njarðvík og Haukar kvöddu Domino´s-deild kvenna í kvöld, bæði lið missa af úrslitakeppninni en það var vitað fyrir leik kvöldsins. Það voru hinsvegar Hafnfirðingar sem ákváðu að nýta tækifærið og loka leiktíðinni á háu nótunum. Öruggur sigur Hauka í Ljónagryfjunni þetta kvöldið, 57-83.
Þó bæði lið væru að leika sinn síðasta leik á tímabilinu fór hann engu að síður fjörlega af stað, snögglega 7-7 en þá hertu gestnirnir úr Hafnarfirði á varnarleik sínum, gerðu 12 stig í röð og komus tí 7-19. Njarðvíkingar náðu að læða að tveimur körfum á síðustu sekúndum leikhlutans þökk sé Karen Dögg en utan þess var skotnýting þeirra afleit gegn Haukavörninni.
Haukar gáfu bara í þegar komið var í annan leikhluta, varnarleikur gestanna áfram ljómandi góður og rauðar saumuðu sig oft auðveldlega í gegnum leka Njarðvíkurvörnina. Helena Sverrisdóttir smellti niður einum langdrægum þrist fyrir Hauka og kom þeim í 22-47 og staðan 28-50 í hálfleik.
Fljótlega í þriðja leikhluta náðu Haukar 30 stiga forystu, 31-61. Flott barátta í liði gestanna sem tættu í sig Njarðvíkurvörnina framan af þriðja en heimakonur þéttu raðirnar og náðu að halda Haukum í 14 stigum í leikhlutanum. Staðan 36-64 að leikhlutanum loknum og úrslit leiksins ráðin, bara spurning um lokatölur.
Njarðvíkingar unnu fjórða leikhluta 21-19 og bitu aðeins frá sér en það var einfaldlega of seint, Haukar höfðu fyrir löngu lagt grunninn að sigrinum með fjölbreyttu og góðu framlagi í kvöld og sterkum varnarleik. Sumarfrí hjá báðum liðum og við getum sýnt ykkur fram á helstu tölur um leið og þær berast en ekki var boðið upp á lifandi tölfræði í Ljónagryfjunni þetta kvöldið.
Mynd/ Dýrfinna Arnardóttir sækir að körfu Njarðvíkinga í kvöld.



