Tvö stig í sarpinn og tveimur sætum ofar í töfluna, óhætt að segja að stigin sem Haukar tryggðu sér í Domino´s deild karla með 76-67 sigri á Stjörnunni í kvöld hafi verið af dýrari gerðinni. Um mikinn baráttuslag var að ræða þar sem Garðbæingar mættu án Junior Hairston sem tók út leikbann. Jón Sverrisson átti glimrandi leik í Stjörnuliðinu með 22 stig og 18 fráköst en það voru Haukar sem reyndust sterkari á lokasprettinum og fögnuðu vel þeim áfanga að brjóta á bak aftur fjögurra leikja taphrinu sína. Fremstur í flokki Hauka fór Tvennu Terrence Watson með 29 stig og 20 fráköst en hann hefur aðeins leikið einn deildarleik á tímabilinu þar sem tvenna féll ekki í hús.
Marvin Valdimarsson sankaði að sér tveimur villum á tveimur fyrstu mínútum leiksins og hélt á tréverkið hjá Stjörnunni fyrir vikið, allt annað en sáttur vitaskuld. Snorri Örn Arnaldsson aðstoðarþjálfari Stjörnunnar kvartaði undan hrollkulda í Schenkerhöllinni skömmu fyrir leik á Twitter og leikmenn beggja liða virtust taka undir með honum, a.m.k. ef marka má skotnýtinguna. Staðan 19-11 fyrir Hauka eftir fyrsta leikhluta þar sem tvær langdrægar frá Hauki Óskars rötuðu niður og Watson reyndist Garðbæingum erfiður með 9 stig eftir fyrsta leikhluta.
Garðbæingar opnuðu annan leikhluta með þriggja stiga körfu og skömmu síðar hristi Marvin Valdimarsson af sér villubyrjunina með körfu og villu að auki og lifnaði nokkuð yfir gestunum uns Kristinn Marinósson ákvað að tempra gestina með tveimur þristum og kom Haukum í 29-17, hvergi banginn og ferskur af bekknum.
Jón Sverrisson var líflína Garðbæinga í fyrri hálfleik, flott vinnsla á kappanum og ekki að sjá að þarna sé maður að skríða saman eftir löng og erfið meiðsli. Heimamenn í Haukum gerðu gestum sínum erfitt fyrir, jakar á borð við Watson, Svavar, Helga Björn og Davíð Pál voru ófeimnir að láta finna fyrir sér og komust í 40-30. Stjörnumenn áttu þó lokasprettinn, gerðu sex síðustu stig fyrri hálfleiks og staðan 40-36 í leikhléi.
Terrence Watson var með 12 stig og 7 fráköst í hálfleik hjá Haukum og Haukur Óskarsson var með 11 stig. Hjá Stjörnunni var Jón Sverrisson með 18 stig og 9 fráköst.
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Haukar: Tveggja 41% – þriggja 40% og víti 57%
Stjarnan: Tveggja 40% – þriggja 20% og víti 90%
Garðbæingar komu beittir inn í síðari hálfleikinn, Dagur Kár tók við kefli Jóns Sverrissonar sem líflína Garðbæinga og var iðinn við kolann. Ívar Ásgrímsson kallaði sína menn í pásu á bekkinn þegar staðan var 50-46 en Garðbæingar náðu forystunni skömmu eftir leikhlé 52-53 en það gerði Dagur Kár og næstu stig komu einnig frá Degi eftir glæsilegt hraðaupphlaup þar sem hann kláraði með tilþrifum undir stórum varnarörmum Watsons í Haukaliðinu. Watson var ekki hættur að láta leika á sig því skömmu síðar varði Marvin Valdimarsson glæsilega skot frá honum og Stjarnan leiddi 54-57 eftir þriðja hluta. Þessar tíu mínútur biðu heimamenn hreinlega eftir því að Watson einn myndi draga vaginn á meðan Garðbæingar þéttu hópinn sem liðsheild.
Í fjórða leikhluta var það Kristinn Marinósson sem minnti á sig á nýjan leik, minnkaði muninn í 57-61 með þriggja stiga körf og stal svo boltanum í næstu Haukavörn. Terrence Watson ætlaði svo ekki að láta fífla sig neitt frekar og tróð með látum yfir Stjörnuvörnina og minnkaði muninn í 59-61. Kári Jónsson náði svo forystunni að nýju fyrir Hauka með þriggja stiga körfu sem fór í spjaldið og ofan í, stráksi „kallaði“ þetta ekki.
Eins og áður greinir var mikið í húfi og það hitnaði verulega í kolunum en Davíð Páll Hermannsson fór langt með Haukasigurinn þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka, Davíð átti þá erfitt stökkskot í teignum, reyndar sem hann á til að setja nokkuð oft, fade-away skot sem rataði niður og breytti stöðunni í 72-65. Haukar þéttu svo raðirnar á varnarendanum og héltu út áhlaup Garðbæinga, lokatölur 76-67 í miklum spennuslag.
Terrence Watson fer ekki í körfuboltaskó fyrir minna en tvennu, 29 stig í kvöld og 20 fráköst og þá bætti Emil Barja við 14 stigum. Kristinn Marinósson kynti vel undir Haukum með sterkum innslögum af bekknum, flottur leikur hjá Kristni með 9 stig og 10 fráköst. Hjá Stjörnunni var Jón Sverrisson bestur, hörkuleikur hjá kappanum með 22 stig og 18 fráköst. Dagur Kár Jónsson gerði svo 17 stig.
Byrjunarliðin:
Haukar: Emil Barja, Haukur Óskarsson, Sigurður Þór Einarsson, Svavar Pálsson og Terrence Watson.
Stjarnan: Justin Shouse, Dagur Kár Jónsson, Marvin Valdimarsson, Jón Sverrisson og Fannar Freyr Helgason.
Mynd/ Axel Finnur Gylfason – Watson ver skot í Schenkerhöllinni í kvöld.



