Bikarhelgin í körfubolta fékk svakalegan lokaleik þetta árið þegar Grindavík og Haukar mættust í bikarúrslitum unglingaflokks karla. Um framlengdan spennuslag var að ræða þar sem Haukar unnu 88-86 sigur með gríðarlegri seiglu. Allt stefndi í stóran og öruggan sigur Grindvíkinga en Haukar snéru taflinu sér í vil í síðari hálfleik þar sem Hjálmar Stefánsson og Kári Jónsson fóru fyrir rauðum. Grindvíkingar áttu lokaskot leiksins og hefðu allt eins getað hrifsað bikarinn því það var bara nokkuð líklegt til að rata heim. Viðsnúningur sem ekki nokkur mun gleyma sem varð vitni að þessum rússíbana.
Hjálmar Stefánsson var valinn Lykil-maður leiksins en Hjálmar var einn af prímusmótorum viðreisnar Hauka með 18 stig, 17 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot. Kári Jónsson lagði einnig sín lóð á vogarskálarnar með 29 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Grindvíkingar misstu þá Jón Axel Guðmundsson og Hinrik Guðbjartsson af velli áður en venjulegum leiktíma lauk sem reyndist gulum þungbært.
Grindvíkingar mættu með læti frá fyrstu stundu og settu 17 stig á Hauka á fyrstu fimm mínútum leiksins. Lágstemmdir Hafnfirðingar fylgdust með gulum prjóna sig í gegnum vörn sína hvað eftir annað en einn með lífsmarki hjá Haukum í fyrsta leikhluta var Ívar Barja. Grindvíkingar lokuðu flottum fyrsta leikhluta með flautuþrist þar sem Nökkvi Már Nökkvason var á ferðinni, staðan 33-16 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
Nökkvi Már hélt áfram að hitta í öðrum leikhluta og Grindvíkingar skelltu 11 stigum yfir Hauka á um það bil tveimur mínútum. Hafnfirðingar voru flatir og Grindvíkingar splundruðu vörn þeirra eins og að drekka vatn. Gulir leiddu 59-33 í hálfleik og allt útlit fyrir þægilega landstím í átt að bikartitlinum.
Jón Axel Guðmundsson hótaði þrennu strax í fyrri hálfleik með 10 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar en Nökkvi Már var stigahæstur með 14 stig. Hjá Haukum var Ívar Barja stigahæstur í hálfleik með 9 stig og þungavigtarmenn eins og Kári og Hjálmar algerlega heillum horfnir með hangandi haus.
Allt annað Haukalið og í raun Grindavíkurlið mættu til leiks í síðari hálfleik, Haukar þéttu raðirnar í vörninni og þeir Kári og Hjálmar ákváðu að demba sér í það að taka þátt í sóknarleiknum með þetta líka glæsilegri útkomu. Haukar unnu þriðja leikhluta 23-13 en Grindvíkingar leiddu engu að síður 72-56 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Framan af fjórða leikhluta minnkaði forystan enn frekar, Haukar hófu leikhlutann með 9-0 árás og Grindavík aðeins með 13 stig á jafn mörgum mínútum í síðari hálfleik. Allt ætlaði svo vitlaust að verða þegar Kári Jónsson jafnaði leikinn 75-75 þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks. Þarna voru Haukar á 3-19 skriði!
Hinrik Guðbjartsson og Jón Axel Guðmundsson fengu báðir fimmtu villuna sína í fjórða leikhluta og vitað að það yrði Grindvíkingum erfitt. Haukar komust í 75-79 og fólk vart vissi hvaðan á sig stóð veðrið, endurkoman öll hin glæsilegasta hjá Haukum en Grindvíkingum var ekki grandað svo auðveldlega heldur náðu þeir að jafna 79-79 og fengu boltann þegar 3,7 sekúndur lifðu leiks. Þá hefði verið gott að eiga inni leikhlé en sá möguleiki var farinn hjá gulum sem brunuðu upp í erfitt skot sem var víðsfjarri og því þurfti að framlengja.
Framlengingin var svakaleg, Kári Jóns með þrist og kom Haukum í 81-84 en Grindvíkingar gerðu næstu fimm stig og komust í 86-84 og það skal alveg sagt að þetta kom við taugarnar í mönnum því bæði lið voru að gera rándýr mistök á þessum kafla. Kári Jónsson jafnaði svo leikinn 86-86 af vítalínunni með tæpar tvær mínútur til leiksloka.
Síðustu stig leiksins komu þegar 56 sekúndur lifðu leiks, þá prjónaði Kári sig í gegnum Grindavíkurvörnina og skoraði auðvelda körfu. Grindvíkingar fóru illa með boltann í næstu sókn og að henni lokinni tókst Haukum ehldur ekki að skora. Grindvíkingar fengu lokaskotið og það var þriggja stiga skot sem leit alls ekki illa út, jafnvel bara nokkuð líklegt en það vildi ekki niður og Haukar fögnuðu sigri.
Svakalegur leikur og gaman að loka bikarhelginni með svona bombu. Vissulega súrt í broti fyrir Grindvíkinga en viðsnúningur leiksins var beggja blands, glæsileg barátta og endurkoma Hauka í bland við einbeitingarskort hjá Grindavík og vilja til þess að drepa leikinn algerlega. Grindavík var með pálmann í höndunum en Haukar hrifsuðu hann af þeim með mikilli seiglu.
Til hamingju Haukar með bikarmeistaratitilinn.



