spot_img
HomeFréttirHaukar bikarmeistarar í 10. flokki karla!

Haukar bikarmeistarar í 10. flokki karla!

Haukar tryggðu sér bikarmeistaratitil í 10. flokki drengja með sigri á Njarðvík, 45-51.  Haukar voru sterkari aðilinn í leiknum og leiddu leikinn lengst af.    Kristján Leifur Sverrisson var valinn mikilvægasti leikmaður leiksins en hann skilaði myndalegri tvennu, 14 stigum, 12 fráköstum og 5 vörðum skotum.  Stigahæsti maður Hauka í leiknum var Kári Jónsson með 18 stig og 12 fráköst og Ívar Barja átti einnig góðan leik fyrir Hauka með 5 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.  Í liði Njarðvíkur var Kristinn Pálsson stigahæstur með 17 stig og 9 fráköst en næstir voru Magnús Már Traustason með 16 stig og 13 fráköst og Ragnar Helgi Friðriksson með 7 stig.  
Haukar tóku af skarið í upphafi leiks og höfðu náð 7 stiga forskoti þegar Njarðvík tók leikhlé, 5-12.  Kristinn Pálsson hafði þá skorað öll fimm stig Njarðvíkur í leiknum.  Haukar voru afgerandi betri í frákastabaráttunni í fyrsta leikhluta og fengu því mörg tækifæri í hverri sókn.  Haukar höfðu þá tekið 18 fráköst gegn aðeins 7 fráköstum Njarðvíkinga.  Haukar höfðu yfir eftir fyrsta leikhluta, 11-16. 

 

Haukar juku við forskotið í öðrum leikhluta og höfðu náð því upp í 11 stig þegar hann var hálfnaður, 12-23.  Njarðvíkingar tóku leikhlé stuttu seinna  og tókst að bæta sinn leik nokkuð.  Þeir náðu muninum niður í 2 stig í stöðunni 24-26 þangað til Haukar tóku leikhlé.  Haukar höfðu verið klaufar og brotið á Njarðvík í opnum skotum sem Njarðvík nýtti sér vel.  Þegar flautað var svo til hálfleiks höfðu Haukar eins stigs forskot, 26-27.  

 

Stigahæstur í liði Hauka í hálfleik var Kári Jónsson með 9 stig og 5 fráköst, en næstir voru Kristján Sverrisson með 8 stig, 9 fráköst og 3 varin skot og Ívar Barja með 6 stig og 3 fráköst.  Í liði Njarðvíkur var Magnús Már Traustason stigahæstur með 12 stig og 5 fráköst en næstir voru Kristinn Pálsson með 11 stig og 5 fráköst og Ragnar Helgi Friðriksson með 3 stig og 3 stoðsendingar.  

 

Njarðvík byrjaði þriðja leikhluta af krafti og höðfu náð forskotinu í fyrsta skiptið í leiknum og höfðu yfir, 30-27 þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta.  Haukar voru þó fljótir að svara fyrir sig og snúa taflinu sér í hag.  Þeir skoruðu næstu 11 stig leiksins og höfðu 8  stiga forskot þegar Njarðvík tók leikhlé, 30-38.  Þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn kominn upp í 11 stig 34-45.  

 

Njarðvíkingar áttu fyrstu 6 stig fjórða leikhluta og höfðu því minnkað muninn niður í 5 stig þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum, 40-45.  Haukar hleyptu þeim þó ekki nær í bili og rúmri mínútu síðar tóku Njarðvíkingar leikhlé, 42-47.  Hilmir Karl Hjörvarsson setti niður stóran þrist fyrir Njarðvík  og minnkaði muninn niður í tvö stig, 45-47, þegar ein mínúta og 17 sekúndur voru eftir af leiknum.  Hjálmar Stefánsson fór hins vegar langt með að tryggja Haukum sigurinn þegar hann fékk boltan, galopinn, undir körfunni og jók muninn upp í 4 stig, 45-49.  Njarðvíkingar hentu boltanum frá sér í næstu sókn.  Haukar náðu því muninum aftur upp í 6 stig, 45-51 og þannig stóðu tölur þegar flautað var til loka leiks. 

 

Karfan.is óskar Haukum innilega til hamingju með bikarmeistartitilinn í 10. flokki karla árið 2012!!!

 

Umfjöllun: [email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -