Haukar eru bikarmeistarar í 10. flokki karla eftir stóran og öruggan sigur á Breiðablik í úrslitaviðureign liðanna í Laugardalshöll. Einstefna var þennan morguninn í fyrsta bikarúrslitaleik dagsins en alls sex bikarúrslitaleikir í yngri flokkum fara fram í dag. Lokatölur í viðureign Hauka og Blika voru 73-55 Hauka í vil þar sem Hilmar Pétursson var valinn Lykil-maður leiksins með 29 stig, 17 fráköst og 4 stoðsendingar í liði Haukanna.
Haukar settu tóninn strax í upphafi leiks og komust í 19-0 áður en Blikum tókst að komast á blað. Fyrirfram var vitað að um brekku yrði að ræða þennan leikinn hjá Kópavogspiltum enda Haukar með eitt allra sterkasta liðið í þessum árgangi. Blikar höfðu það þó af að skora í fyrsta leikhluta en Haukar leiddu 25-8 að honum loknum.
Vel spilandi Hafnfirðingar fengu mun meiri mótstöðu í öðrum leikhluta og mesti hrollurinn virtist vera úr Blikum sem unnu leikhlutann 15-17. Hafsteinn Guðnason og Kristinn Helgi Jónsson voru þeirra helstu vopn á sóknarendanum og liðsvörn grænna var mun betri. Haukar engu að síður með þægilega forystu í hálfleik, 40-25 þar sem Hilmar Pétursson var búinn að skóla menn um allan völl með 20 stig í hálfleik í liði Hauka. Hafsteinn Guðnason var stigahæstur Blika í hálfleik með 11 stig.

Hafnfirðingar létu finna fyrir sér á ný í þriðja leikhluta, unnu leikhlutann 22-12 og kláruðu þar með verkefnið enda staðan 62-37 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Blikar gerðu samt vel að bíta frá sér í fjórða leiklhuta með því að vinna hann 18-11 en það var þungt fyrir Hafstein Guðnason að bera helsta þungann sóknarlega og hefðu Kópavogsmenn þurft að leggja fleiri lóð á vogarskálarnar í sókninni. Haukar unnu því öruggan og verðskuldaðan 73-55 sigur en þessi hópur er fyrnasterkur og líklegir til frekari afreka í 10. flokki þennan veturinn.
Tölfræði leiksins




