spot_img
HomeFréttirHaukar áfram eftir sigur á bragðdaufum ÍR-ingum

Haukar áfram eftir sigur á bragðdaufum ÍR-ingum

00:06 

{mosimage}

(Morten setur niður 2 af 9 stigum sínum)

Haukar tryggðu sér sæti í annarri umferð Powerade bikarkeppninnar eftir 65-76 sigur á ÍR í Seljaskóla í kvöld. Jafnt var með liðunum framan af en Haukar reyndust sterkari í síðari hálfleik og lögðu því einstrengingslegt ÍR lið. Haukar mæta því Skallagrím í annarri umferð á sunnudag og fer leikurinn fram í Borgarnesi. 

Um miðjan fyrsta leikhluta áttu Haukar fína rispu og komust í 11-17 en Rodney Blackstock setti þá niður þrist fyrir ÍR og minnkaði muninn í 14-17. ÍR-ingar höfðu svo yfir 21-20 að loknum leikhlutanum og strax í öðrum leikhluta fór að halla undan fæti hjá heimamönnum. 

Roni Leimu breytti stöðunni í 21-23 með þriggja stiga körfu í upphafi annars leikhluta og þá kom átta stiga runa hjá Haukum án þess að ÍR-ingar næðu að svara. Haukar juku svo muninn í 29-39 á meðan ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu að dæla boltanum á Hreggvið undir körfunni með misgóðum árangri. Hreggviður var Haukum illur viðureignar en ljóst var að það myndi duga skammt allan leikinn. Liðin gengu til leikhlés í stöðunni 37-41 Haukum í vil en heimamenn gerðu vel á lokaspretti annars leikhluta og náðu að koma muninum niður í fjögur stig eftir að Haukar höfðu verið með um 10 stiga forskot í nokkrar mínútur.  

{mosimage}

Haukar byrjuðu sterkt í síðari hálfleik og gerðu fyrstu sjö stigin í leikhlutanum og breyttu stöðunni í 37-48. Sóknarleikur ÍR gekk að langmestum hluta út á að koma boltanum á Hreggvið á meðan aðrir leikmenn liðsins gerðu lítið annað en að horfa á hann berjast undir körfunni. Rodney Blackstock náði lítið sem ekkert að hefja sig til flugs í leiknum og alla stemmningu vantaði í heimamenn.  

Sveinn Sveinsson kom sterkur inn í lið Hauka í síðari hálfleik og gerði fjögur stig í leiknum og tók 8 fráköst og náði að hrista aðeins upp í Hreggviði sem var með ÍR-liðið á herðunum. Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 52-63 og þar með má segja að björninn hafi verið unninn því ÍR-ingar virtust fremur andlausir. Í fjórða leikhluta reyndu ÍR-ingar fyrir sér í svæðisvörn en hún virkaði ekki sem skyldi og um miðjan leikhlutann voru þeir komnir aftur í maður á mann vörn. Sigur Hauka var ekki í hættu og héldu þeir um 10 stiga forskoti í leikhlutanum allt þar til flautan gall. Lokatölur 65-76 Haukum í vil og ærinn starfi framundan hjá ÍR-ingum á næstunni þar sem liðið var nokkuð ósamhæft og andlaust. 

Stigahæstur í liði Hauka var Roni Leimu með 22 stig en næstur honum var Kevin Smith með 19 stig og 7 fráköst. Hjá ÍR var Hreggviður Magnússon allt í öllu, gerði 19 stig og tók 14 fráköst, Rodney Blackstock gerði 16 stig fyrir ÍR en Bárður og félagar þurftu meira frá leikmönnum á borð við Fannar, Ómar og Eirík í kvöld. ÍR liðið er hávaxið og með sterka leikmenn og þeir eiga eflaust eftir að slípa sig betur saman áður en deildarkeppnin hefst og þá verður forvitnilegt að fylgjast með þeim. 

Tölfræði leiksins

Gangur leiksins: 

7-5, 11-17, 21-20

21-26, 29-37, 37-41

39-48, 47-58, 52-63

54-66, 57-68, 65-76

 [email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -