Haukar og KR áttust við í magnaðri viðureign í kvöld í Schenkerhöllinni þar sem Haukar komust mest 14 stigum yfir í upphafi seinni hálfleiks áður en KRingar komust í gírinn og unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og gerðu sig líklega til að stela sigrinum af Haukum en þeir stóðust áhlaupið og unnu 87-84 í spennuþrungnum leik. En þetta ku vera í fyrsta skiptið síðan 14. nóvember 2004 sem Haukum tekst að sigra KR á sínum heimavelli.
Leikurinn byrjaði á jöfnu nótunum en Haukar enduðu fyrsta leikhlutann á 7-3 kafla og leiddu 24-19. Alex Francis og Kristinn Marinósson voru KRingum einstaklega erfiðir en þeir voru með 10 og 9 stig í fyrsta leikhlutanum og var Kristinn með 3/3 í þristum.
Annar leikhluti var síðan eitt stórt þriggjastiga einvígi en liðin hófu hann á að setja sitt hvoran þristinn og var það Ingvaldur Magni Hafsteinsson af öllum sem setti þristinn fyrir KRinga. Þegar fimm og hálf mínúta var liðin af öðrum leikhluta voru KR aðeins búnir að skora úr þristum í opnum leik, eða fjögur stykki og staðan orðin 33-33. Haukar vildu ekki vera neinir eftirbátar þeirra og smelltu niður þremur þristum í röð og var Kristinn með tvo þeirra og þar með kominn með 5 í 5 skotum og veit ég ekki hvort ég eigi að líkja honum við Stephen Curry, Klay Thompson eða Kyle Korver. Haukar leiddu því á þessum tímapunkti 42-33. Pavel Ermolinskij fékk tvær villur á stuttum tíma og þurfti að setjast á tréverkið enda kominn með þrjár villur. Haukum tókst að bæta við einu stigi í viðbót við forystu sína og leiddu þeir með 10 stigum í hálfleik, 49-39. KR ekki með sjálfum sér og aðeins einn leikmaður í þeirra röðum sem var að spila eins og hann á að sér að vera og var það Brynjar Þór Björnsson en hann skoraði 8 stig í leikhlutanum og var hann aðeins að hita upp.
KR sýndu svo sitt rétta andlit í þriðja leikhluta þar sem þeir sóttu stíft að Haukum. Pavel og Michael Craion fundu taktinn og Brynjar breyttist í einn stóran eldhnött en hann var með 12 stig í leikhlutanum og það allt þrista. Haukum tókst þó að vera áfram yfir að loknum leikhlutanum, en með naumyndum því staðan var orðin 69-65 fyrir lokaátökin.
Francis fékk sína fjórðu villu snemma í fjórða leikhluta og þurfti að fara útaf í smá stund. Það hafði þó ekki áhrif á Hauka því Kristinn Jónasson sem leysti hann af skoraði strax ásamt því að fá víti að auki og voru Haukar þá komnir 7 stigum yfir. Brynjar varð þá duglegur að koma sér á línuna og setti hann niður fimm víti á skömmum tíma og minnkaði hann muninn niður í aðeins eitt stig, 74-73, þegar fimm mínútur voru eftir til leiksloka. Eftir það var leikurinn algjörlega í járnum. KR tókst í þrígang að jafna leikinn en Haukar svöruðu alltaf og tókst að halda út og landa sigrinum.
Mynd/ Alex Francis var Craion og KRingum öllum mjög erfiður í kvöld en hann var rosalegur undir körfunni og skoraði 33 stig



