spot_img
HomeFréttirHáspenna lífshætta í lokaleik Teits - KR í úrslit

Háspenna lífshætta í lokaleik Teits – KR í úrslit

Eftir magnaða seríu hinna margafskrifuðu Stjörnumanna og KR-inga er nú ljóst að það verða Vesturbæingar sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos deild karla vorið 2014. Fjórði leikur liðanna bauð upp á gríðarlega spennu og réðst ekki fyrr en á lokasekúndu rimmunnar.
 
Eftir glæsilegan sigur í leik þrjú mættu Stjörnumenn til leiks ákveðnir í að láta skipbrotið sem þeir biðu í Ásgarði í leik tvö endurtaka sig. KR-ingar virtust álíka óspenntir að endurtaka það afhroð sem þeir guldu í DHL-höllinni síðastliðinn fimmtudag og úr varð hörkuleikur, alvöru úrslitakeppnisbolti. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var hnífjöfn, 23-23.
 
Í öðrum leikhluta tóku gestirnir af skarið og náðu upp ágætis forystu. Stjörnumönnum gekk virkilega illa í sóknarleik sínum, og náðu ekki að velgja KR undir uggum í vörninni. Í fyrri hálfleik voru Stjörnumenn til að mynda með vel á annan tug tapaðra bolta, sem er auðvitað rándýrt á jafnstóru sviði. Í hálfleik höfðu Vesturbæingar átta stiga forskot, 40-48.
 
Stjörnumenn byrjuðu að spila mun betur strax í þriðja leikhluta og söxuðu verulega á forskot gestanna. Heimamenn fengu fjölmörg tækifæri til að jafna leikinn en oft virtist skynsemin yfirgefa Garðbæinga á ögurstundu, og oftar en ekki svöruðu KR-ingar á hinum endanum með körfu, og héldu þar með naumu forskoti sínu, sem stóð í fjórum stigum fyrir lokafjórðunginn, 63-67.
 
Það sama var uppi á teningnum stærstan hluta lokafjórðungsins. Stjörnumenn náðu þó einu sinni að jafna, í stöðunni 78-78, en þá tóku KR-ingar fimm stiga rispu og að lokum kom Pavel Ermolinskij gestunum í 80-86 með svokölluðum rýtingsþristi úr horninu. Liðin skiptust síðan á körfum þar til brotið er á Brynjari Þór Björnssyni þegar 11 sekúndur lifðu leiks, og staðan 86-89, gestunum í vil. Brynjar setti fyrra vítið ofan í, en klikkaði á því seinna. Junior Hairston hirti varnarfrákastið, keyrði upp völlinn og smellti í einn vel djúpan þrist, með 5 sekúndur eftir á klukkunni. 89-90 fyrir KR og spennan óbærileg. Stjörnumenn brutu á Martin Hermannssyni, sem fór á línuna. Martin klikkaði hins vegar á báðum vítunum, en KR náði hins vegar sóknarfrákastinu með gríðarlegri baráttu og leikurinn var þar með þeirra. 89-90 sigur KR í mögnuðum leik.
 
Stjörnumenn geta gengið virkilega stoltir frá borði í þessari úrslitakeppni. Liðið var ekki hátt skrifað hjá mörgum fyrir rimmu fyrstu umferðar gegn Keflavík, og hvað þá gegn KR, en Garðbæingar sópuðu Keflvíkingum eins og frægt er orðið og létu KR-inga svo sannarlega hafa fyrir hlutunum. Leikur liðsins í kvöld var lokaleikur Teits Örlygssonar sem þjálfari Stjörnunnar, en þessi sigursælasti leikmaður Íslands snýr sér nú að öðru eftir fimm ár í brúnni hjá Stjörnunni. Teitur var nokkuð brattur eftir leikinn þrátt fyrir allt.

“Já við létum KR svo sannarlega hafa fyrir hlutunum í þessari seríu, og það er ótrúlegt að hugsa sér að við séum í raun bara einni villu í fyrsta leiknum, og einu stigi í kvöld frá því að fara í oddaleik eða enn lengra. Ég veit ekki hvort Martin var að reyna að klikka úr báðum vítunum, en það er smá svekkjandi þegar við áttum síðasta leikhléið eftir, því það hefði verið gaman að stilla upp í eitt kerfi á fjórum sekúndum og reyna að vinna, en við gáfum allt í þetta og maður getur vaknað sáttur á morgun”.

 
KR-ingar leika nú í úrslitum Íslandsmótsins í fyrsta sinn síðan 2011 og verða að teljast ansi sigurstranglegir. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari þeirra var að vonum ánægður með árangurinn. “Engin spurning, þetta var frábær leikur, og gríðarlega gaman að koma hingað og vinna”.
 
Stigahæstur Stjörnunnar var Junior Hairston með 30 stig og tók auk þess 18 fráköst. Hjá gestunum var Martin Hermannsson með myndarlega tölfræðilínu, 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.
 
 
Umfjöllun – Elías Karl Guðmundsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -