Stjarnan tók á móti KR í fyrsta leik liðanna á nýju ári í ÞG-Verk höllinni á svellköldu laugardagskvöldi. Liðin voru ekki eins góð varnarlega og þau hefðu viljað í leiknum en Stjarnan náði naumum tveggja stiga sigri eftir æsispennandi lokamínútur, 98-96.
KR virtist aðeins seinna í gangi í byrjun leiksins og Stjarnan var með 15-6 forystu strax eftir fjórar mínútur. KR-ingar náðu aðeins vopnum sínum eftir það og komust inn í leikinn en slæmir tapaðir boltar héldu aftur af þeim mestan part leiksins. Sem betur fer fyrir gestina þá voru Stjörnumenn ekki að hitta mjög vel og því misstu Vesturbæingar Stjörnuna ekki allt of langt frá sér í fyrri hálfleik, staðan 51-43 í lok hans.



KR kom einbeittari inn í seinni hálfleik og neyddi Baldur Þór til að taka snemmbúið leikhlé eftir aðeins þrjár mínútur í stöðunni 55-51. Stjarnan brást vel við og náðu aftur tökum á leiknum að því er virtist. KR-ingar voru þó aldrei langt undan og nýr leikmaður þeirra svarthvítu, lettneski landsliðsmaðurinn Toms Leimanis, setti 11 stig í þriðja leikhluta. KR-ingar náðu undir lok leikhlutans að komast yfir og leiddu 71-73 þegar tíu mínútur lifðu leiks.



Í fjórða leikhluta var allt í járnum og liðin skiptust á forystunni nokkrum sinnum. Sóknarfráköst hjá Stjörnunni voru mikilvæg enda fengu heimamenn fjölmörg auka tækifæri til að skora, sem þeir nýttu sér oft. KR átti samt nokkra ása uppi í erminni og settu nokkur ævintýraleg skot til að ýmist jafna eða taka forystuna. Undir lok leiksins, með u.þ.b. 90 sekúndur eftir af leiknum, fór Seth LeDay upp að körfunni til að skora og fiskaði harða villu á Linards Jaunzems. Hann reyndist of meiddur til að taka vítaskotin sín og Pablo Bertone var því skipt inn á til að taka vítin tvö og ná þar með stöðunni 96-94. Rúmri mínútu seinna náðu KR-ingar að jafna með frábærri leikfléttu úr leikhléi en skildu aðeins of mikið eftir á leikklukkunni og Seth LeDay náði að blaka boltanum ofan í með minna en sekúndu eftir af leiknum. Æsispennandi leikur sem lauk eins og áður sagði með sigri Stjörnunnar, 98-96.
Myndir / Sævar Jónasson
Stjarnan: Seth Christian LeDay 26/13 fráköst/5 varin skot, Ægir Þór Steinarsson 22/10 stoðsendingar, Luka Gasic 16/6 fráköst, Giannis Agravanis 14/9 fráköst, Orri Gunnarsson 7, Pablo Cesar Bertone 7/4 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 6/4 fráköst, Björn Skúli Birnisson 0, Daníel Geir Snorrason 0, Aron Kristian Jónasson 0, Jakob Kári Leifsson 0, Atli Hrafn Hjartarson 0.
KR: Kenneth Jamar Doucet JR 25/10 fráköst, Toms Elvis Leimanis 15, Linards Jaunzems 15, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 15/10 fráköst/8 stoðsendingar, Aleksa Jugovic 10, Friðrik Anton Jónsson 9/5 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 4, Þorvaldur Orri Árnason 3, Orri Hilmarsson 0, Benóní Stefan Andrason 0, Hallgrímur Árni Þrastarson 0, Lars Erik Bragason 0.



