spot_img
HomeFréttirHáspenna lífshætta á Skaganum

Háspenna lífshætta á Skaganum

 Það var hörku leikur sem fram fór á Jaðarsbökkum á Akranesi í kvöld. Fyrir leikinn var orðið ljóst að ÍA gat hvorki fallið né náð inn í úrslitakeppnina þannig að þeirra megin snérist þetta um það eitt að hafa gaman að þessu og landa tveimur stigum. FSu aftur á móti áttu ennþá séns á sæti í úrslitakeppninni og mættu því einbeittir og tilbúnir til að mæta af hörku inn í leikinn.
 
Gestirnir frá Selfossi náðu fljótt forystu í leiknum og leiddu með átta stigum eftir 1. leikhluta 23-31. 2. leikhluti byrjaði á svipuðum nótum, gestirnir voru alltaf skrefi á undan en heimamenn ætluðu að sína þeim áhorfendum sem voru mættir í húsið að þeir væru ekki hættir í deildinni þetta tímabilið og jöfnuðu leikinn 39-39 þegar tvær mínútur voru í hálfleik. Þá tók við afdrifaríkur kafli í leiknum, FSu setur niður 3ja stiga skot og vann svo boltann og hélt af stað í sókn. Ari Gylfason fær boltann fyrir utan þriggja stiga línuna og Áskell Jónsson er í varnarstöðu á móti honum. Ari sveiflar höndunum með boltann sem endar með því að olnbogi hans fer beint í andlit Áskels sem fellur í gólfið. Dómararnir taka þá ákvörðun að dæma ekki neitt, segja að olnboginn á Ara hafi ekki farið í andlit Áskels, en blóðnasir Áskels sögðu aðra sögu. Í stað þess að dæmd væri a.m.k. villa á Ara fengu bæði Áskell og Örn liðsstjóri tæknivillur fyrir að mótmæla dómgæsluleysi dómaranna. Áskell þurfti að fara af velli og inn í búningsklefa til aðhlynningar á meðan Ari Gylfason fór á vítalínuna og tók fjögur vítaskot áður en FSu fékk afhentan boltann aftur til að hefja sókn. Vægt til orða tekið fannst heimamönnum að sér vegið og sumum var það nóg boðið að þeir yfirgáfu húsið. En leikurinn hélt áfram og fór svo að FSu leiddi í hálfleik með þrem stigum, 43-46.
 
Síðari hálfleikur hófst svo með látum, enda ekki við öðru að búast eftir það hvernig fyrri hálfleik lauk. Liðin skiptust á að leiða í stigaskori en FSu var samt með aðeins betri tök á sínum leik náðu undir lok þriðja leikhluta 13 stiga forystu en þriggja stiga skot Dags Þórissonar þegar lokaflauta þriðja fjórðungs gall fór beint ofaní og minkaði þannig muninn í 69-76. Við tók svo æsispennandi 4. fjórðungur, dæmdar voru tvær tæknivillur á FSu, önnur á Erik Olsen þjálfara fyrir uppsöfnuð mótmæli auk þess sem bekkurinn fékk tæknivillu fyrir mótmæli. Skagamenn nýttu sér þetta og náðu forystu í leiknum og þegar rétt rúmar 20 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan jöfn 99-99. FSu men voru með boltan og fóru í sókn sem endaði með því að dæmd var villa á ÍA þegar tæpar 7 sekúndur voru eftir af leiknum. Erlendur Ágúst Stefánsson fór á vítalínuna og var öryggið uppmálað og setti bæði vítin niður og kom gestunum í 99-101. Skagamenn brunuðu af stað í sókn, Zachary Jamarco Warren kom upp með boltann gaf sending á Áskel Jónsson sem setti niður laglegt 2ja stiga skot og lokatölur því 101-101 sem þýddi bara eitt – framlenging, eitthvað sem skagamenn eru farnir að venjast en framundan var fjórða framlengingin þetta tímabilið í 9 leikjum.
 
Í framlengingunni byrjuðu FSu menn betur, náðu mest 7 stiga forystu 107-113 en ÍA náði að jafna leikinn þegar Birkir Guðjónsson setti niður 3ja stiga skot þegar rétt rúmar 3 sekúndur voru eftir af leiknum og staðan 113-113. FSu fór þá í sókn og brutu heimamenn á Birki Víðissyni sem fór á línuna. Áhorfendur létu vel í sér heyra og fyrra skot Birkis geygaði og pressan fyrir seinna skotið jókst. En með taugarnar þandar setti hann niður seinna skotið og staðan 113-114 fyrir FSu og rétt ein sekúnda eftir sem dugði skagamönnum til að reyna skot yfir endilangan völlinn sem ekki fór ofan í og eins stigs sigur FSu staðreynd í framlengdum leik.
 
Bestur í liði gestanna var Ari Gylfason sem setti niður 32 stig, þar af átta 3ja stigaskot auk þess að taka 5 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Erlendur Ágúst Stefánsson spilaði einnig mjög vel með 18 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Hlynur Hreinsson setti einnig 18 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Collin Anthony Pryor var með 17 stig og 14 fráköst og Arnþór Tryggvason sett einnig 17 stig og tók 10 fráköst.
 
Hjá heimamönnum átti Dagur Þórisson flotta endurkomu eftir meiðsli en kappinn er ný orðinn 40 ára. Skemmst er frá því að segja að þegar hann kom inn á völlinn með sína baráttu og reynslu breyttist leikur heimamanna en skagamenn unnum þær mínútur sem Dagur var inn á með 5 stigum en hann skoraði 10 stig og tók auk þess 6 fráköst . Voru menn á einu máli eftir leik að vonandi væri þetta ekki hans síðasti heimaleikur fyrir félagið.
 
Annar leikmaður sem gæti hafa verið að spila sinn síðasta leik á Akranesi, Zachary Jamarco Warren var einfaldlega lang stærsta númer vallarins en kappinn skoraði úr 12 af 17 tveggja stiga skotum, 8 af 19 þriggja stiga skotum og 14 af 16 vítaskotum sínum sem gerir samtals 62 stig, takk fyrir. Við þetta bætti hann svo 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Næstur honum í stigaskorun var svo þjálfarinn Áskell Jónsson með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.
 
Nánari tölfræði leiksins má sjá hér

Efir leikinn er ljóst að ÍA endar þetta tímabil í 8. sæti deildarinnar þrátt fyrir að einn leikur sé eftir hjá þeim á móti Fjölni á útivelli. FSu er í sætinu fyrir ofan en á ennþá möguleika á 5. sæti deildarinnar sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni en þeir mæta föllnum Vængjum Júpiters í loka umferðinni en verða að treysta á að Breiðablik misstígi sig heima á móti Þórsurum og Hamarsmenn tapi á útivelli gegn föllnum Augnabliksmönnum.
 
Mynd Jónas Ottósson
Texti HH
 
Fréttir
- Auglýsing -