spot_img
HomeFréttirHáspenna í Röstinni

Háspenna í Röstinni

KR-stelpur mættu tilbúnar til leiks í kvöld í Röstinni í Grindavík og eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-15 fyrir KR sem voru að spila einstaklega vel á sama tíma og Grindavíkur-stelpur voru ansi mislagðar hendur og voru þær með 11 tapaða bolta í leikhlutanum. Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn töluvert og settu liðin upp þriggja stiga sýningu í leikhlutanum en alls voru skoraðir níu þristar í leikhlutanum. Staðan eftir annan leikhluta var 38-45 fyrir KR og leit út fyrir að KR væri með góða stjórn á leiknum.
 
 
Í þriðja leikhluta fóru Grindavíkurstelpur að berjast meira og spila fastari vörn og náðu þær að minnka muninn niður í 3 stig þegar leikhlutanum lauk. Fjórði leikhluti var virkilega spennandi, KR stelpur náðu að auka forskotið upp í 6 stig en Grindavík barðist áfram og þegar um tvær og hálf mínúta voru eftir setti Ingibjörg Jakobsdóttir niður stóran þrist og minnkar muninn í 64-65. Bæði lið fengu nokkur tækifæri til að skora en það var síðan Crystal Smith sem stal boltanum og skoraði úr hraðaupphlaupi og kom Grindavík yfir í fyrsta sinn síðan snemma í 1.leikhluta. Grindavík er því einu stigi yfir og um 55 sekúndur eftir. KR tekst ekki að skora í næstu sókn en María B. Erlingsdóttir skorar örugglega fyrir Grindavík og kemur þeim í 68-65 og um 25 sekúndur eftir. KR tekur leikhlé og bjuggust flestir við því að Grindavík myndi halda áfram í maður á mann vörn enda aðeins með 3 villur og gátu því brotið einu sinni án þess að KR fengi vítaskot. En Grindavík stillir upp í svæði sem gekk ekki betur en svo að Sigrún Ámundadóttir fékk galopið þriggja stigaskot þegar nokkrar sekúndur eru eftir og skorar örugglega og jafnar leikinn. Grindavík nær síðan ekki að skora og var því boðið upp á framlengingu.
 
KR byrjar með boltann en Ebone Henry fær dæmda á sig sóknarvillu. Í næstu sókn tapar Ingibjörg boltanum sem Björg Einarsdóttir stal og skoraði Bergþóra Holton Tómasdóttir 2 stig fyrir KR. Grindavík heldur í sókn og aftur tapar Ingibjörg boltanum en nú var það Ebone Henry sem stelur boltanum og brýtur Ingibjörg á henni í hraðaupphlaupi og setur Ebony seinna skotið niður og kemur KR 3 stigum yfir. Grindavík skorar næstu 4 stigum og kemst yfir 72-71 en Ebone svarar um hæl með þriggja stiga körfu og KR komið 2 stigum yfir. Í næstu sókn tapar Helga Hallgrímsdóttir boltanum illa og Ebone skorar auðveldlega 2 stig og nú er KR komið 5 stigum yfir. María Ben minnkar muninn í næstu sókn en síðan skorar Björg stóran þrist fyrir KR þar sem hún stóð nær miðju en þriggja stiga línunni og það má segja að þetta hafi verið vendipunktur í framlengingunni. KR var á þessum tíma komið 6 stigum yfir og þrátt fyrir hetjulega baráttu hjá Grindavík náðu þær ekki að ógna sigri KR.
 
Grindavíkurstelpur komust nálægt því að stela sigri af KR í kvöld en augnabliks einbeitningarleysi í vörninni í lok 4. leikhluta varð til þess að KR náði að jafna og komast í framlengingu þar sem þær voru mun ákveðnari. KR var mun betri aðilinn í framlengingu og unnu verðskuldaðan sigur.
 
Bergþóra Holton Tómasdóttir átti frábæran leik og skoraði körfur í öllum regnbogans litum og endaði með 25 stig. Ebone Henry var mjög góð með 25 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar og Sigrún Sjöfn var með 20 stig og 9 fráköst.
 
Hjá Grindavík var María Ben Erlingsdóttir með 22 stig og 11 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir með 17 stig og 7 fráköst, Helga Rut Hallgrímsdóttir með 14 stig og 9 fráköst, Crystal Smith með 12 stig, 7 stolna en einnig með 7 tapaða og Ingibjörg Jakobsdóttir með 11 stig og 10 stoðsendingar.
 
 
Umfjöllun/BG
 
  
Fréttir
- Auglýsing -