ÍR-ingar tóku á móti Skallagrímsmönnum í Hertzhellinum í kvöld. Báðum liðum er spáð sæti í neðri hluta deildarinnar og mátti því búast við hörkuleik þar sem tvö mikilvæg stig voru í boði.
Sveinbjörn Claessen byrjaði leikinn með látum og setti tvo þrista í röð fyrir heimamenn. Gestirnir reyndust þó sterkari á upphafsmínútunum og náðu 7 stiga forskoti, 6-13, með Grétar Erlendsson í fararbroddi sem var drjúgur undir körfunni í kvöld. Breiðhyltingar voru þó aldrei langt undan og héldu í við Borgnesinga með góðri þriggjastiganýtingu. Skallar leiddu eftir fyrsta leikhluta 23-29 þar sem Grétar og Paxel voru með 9 stig hvor en Sveinbjörn og Terry Leak voru atkvæðamestir heimamanna með 7 stig hvor.
Heimamenn byrjuðu annan leikhluta af krafti og minnkuðu muninn niður í eitt stig, 31-32 með góðum þristum frá Björgvini Ríkharðssyni og Sveinbirni Claessen. Skallagrímsmenn juku þó muninn aftur með fínum sprettum frá Paxel, Grétari og Green og náðu níu stiga forskoti, 33-42. Á þessum tímapunkti leit út fyrir að Skallagrímsmenn væru að síga þægilega fram úr en ÍR-ingar komu sterkir til baka með 5 stigum í röð frá Björgvini og flottum körfum frá Terry. Breiðhyltingar toppuðu síðan flottan kafla sinn þegar þeir komust einu stigi yfir 43-42. Borgnesingar náðu þó forystunni aftur og staðan í hálfleik 44-46.
Jafnræði var með liðum í þriðja leikhluta en ÍR-ingar voru skrefinu á undan gestunum með Sveinbjörn Claessen í fararbroddi. Leikhlutinn einkenndist af hörku þar sem bæði liðin sýndu fínan körfubolta á köflum. Skallagrímsmenn leiddu með einu stigi eftir leikhlutann, 68-69 eftir þriggjastiga flautukörfu frá Green og allt stefndi í hörku fjórða leikhluta.
Gestirnir frá höfuðstað Vesturlands byrjuðu fjórða leikhluta af hörku þar sem Green og Paxel leiddu 10-2 kafla Skallanna og komu stöðunni í 70-79. Aftur leit út fyrir að Skallagrímsmenn myndu ná þægilegum tökum á leiknum en allt kom fyrir ekki. Með miklu harðfylgi náðu heimamenn að jafna leikinn 79-79 þar sem Björgvin Ríkharðsson fór mikinn. Lokamínútur leiksins voru rafmagnaðar þar sem liðin skiptust á að skora. Jafnt var á öllum tölum en í stöðunni 85-85 fengu heimamenn 2 vítaskot og settu annað þeirra. Þá voru 45 sekúndur eftir af leiktímanum en Skallagrímsmenn fengu þá dæmda á sig dýrkeypta sóknarvillu og ÍR-ingar komnir með leikinn í sínar hendur. Heimamenn gerðu svo endanlega út um leikinn þegar þeir náðu þremur sóknarfráköstum í röð í lokasókn sinni og enduðu leikinn á því að setja niður tvö vítaskot. Lokatölur 88-85 og baráttusigur heimamanna staðreynd.
Í liði heimamanna var Terry Leake atkvæðamestur með 27 stig og 11 fráköst en Björgvin Ríkharðsson átti einnig stórleik og skilaði 24 stigum, 11 fráköstum og 5 stoðsendingum ásamt því að leiða áhlaup sinna manna með mikilli baráttu. Sveinbjörn Cleassen var ekki langt þar á eftir en hann skoraði 21 stig, hirti 9 fráköst og var með stórgóða skotnýtingu.
Í liði gestanna var Mychal Green stigahæstur með 29 stig en Páll Axel kom þar á eftir með 23 stig og 8 fráköst. Grétar Erlendsson átti einnig fínan leik og skilaði 17 stigum.
Umfjöllun/ÞÖV



