spot_img
HomeFréttirHáspenna á Egilsstöðum

Háspenna á Egilsstöðum

Hattarmenn höfðu sigur í framlengingu annan leikinn í röð þegar Hrunamenn sóttu þá heim á Egilsstöðum í kvöld. Lokatölur 79-78.
 
Það fer að líða að því að Hattarmenn þurfi að bjóða upp á hjartastyrkjandi lyf til sölu í sjoppunni, slíkt hefur spennustigið verið í öllum þremur leikjum tímabilsins. Sigur á lokamínútunum gegn Ármanni og sigrar í framlengingu gegn Þór á Akureyri og nú Hrunamönnum.
Í fyrri hálfleik var ekki margt sem benti til þess að Höttur myndi landa sigri. Leikurinn byrjaði illa fyrir þá þegar Ágúst Dearborn var studdur út af vellinum eftir að hafa fiskað ruðning og fengið slæmt högg á ökkla. Hann átti þó eftir að koma inn á að nýju og blanda sér heldur betur í slaginn. Leikmenn Hattar hittu ekki vel frekar en fyrri daginn og stíf pressuvörn gestanna virtist slá þá út af laginu. Hattarmenn voru með óteljandi tapaða bolta í öðrum fjórðungi og fáir leikmenn voru að sýna góð tilþrif. Undantekningin frá þessu var Davíð Arnar Ragnarsson sem skoraði 11 stig í fyrri hálfleik og var sá eini sem sýndi sitt rétta andlit. Hrunamenn hafa greinilega lagt mikla vinnu í að bæta varnarleik sinn og ég efast ekki um að mörg lið munu lenda í vandræðum með þessa pressu þeirra, sérstaklega í þrengslunum á heimavelli þeirra á Flúðum. Hattarmenn virkuðu að sama skapi þungir í sínum varnartilburðum og gestirnir náðu mest 15 stiga forystu í hálfleiknum og leiddu 29-39 þegar annar leikhlutinn rann sitt skeið á enda.
 
Heimamenn efldust í þriðja leikhluta og náðu góðum leikkafla þar sem þeir breyttu stöðunni úr 40-53 í 50-53 á skömmum tíma og staðan 50-55 þegar fjórði leikhluti hófst. Hattarmenn héldu siglingunni áfram og komust yfir í 56-55. Eftir það hélst leikurinn hnífjafn til loka, en útlitið var nokkuð dökkt fyrir heimamenn þegar staðan var 65-69 og 55 sekúndur eftir. En Höttur náði að jafna og knýja fram framlengingu. Eftir jafna og spennandi baráttu í framlengingunni var það að lokum eitt stig sem skildi liðin að. Lokastaðan sem áður sagði 79-78 fyrir heimamenn.
 
Kevin Jolley dró vagninn algjörlega fyrir félaga sína í seinni hálfleiknum í kvöld, en var að sama skapi frekar slappur í fyrri hálfleik. Hann er illviðráðanlegur undir körfunni og endaði með 38 stig og tók 21 frákast en í hálfleik var hann aðeins með 6 stig og 8 fráköst. Aðrir leikmenn liðsins sýndu enga störnutakta. Davíð Arnar Ragnarsson skoraði að vísu 18 stig og var sem áður segir áberandi bestur í fyrri hálfleik og Ágúst Dearborn skoraði 8 stig og var með 10 stoðsendingar en með 8 tapaða bolta. Enn á ný virðist hins vegar úthaldið vera að skipta sköpum í leikjum Hattar. Fjarvera Kristins Harðarsonar hafði án efa áhrif í þessum leik en kom þó ekki að sök á endanum. Björn Einarsson þjálfari Hattar viðurkenndi eftir leik að hans leikmenn hefðu leikið skelfilega í kvöld en var vitaskuld ánægður með niðurstöðuna og þá staðreynd að liðið hefur náð að knýja fram sigra í þremur hnífjöfnum leikjum. Það eru jafnmargir sigrar og liðið náði á öllu tímabilinu í fyrra.
 
Í liði gestanna bar mest á Atla Gunnarssyni en hann skoraði 17 af 28 stigum liðsins í upphafi leiks. Hann endaði með 24 stig og 7 fráköst og Sigurður Sigurjónsson kom næstur með 14 stig og 9 fráköst. Hrunamenn eru ennþá án sigurs í deildinni og þurfa að fara að rífa sig upp ef ekki á illa að fara, en sýndu í kvöld að þeir geta velgt andstæðingum sínum verulega undir uggum.
 
Umfjöllun: Stefán Bogi
 
 
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -