09:05:05
Bakvörðurinn Devin Harris fór hamförum í nótt þegar lið hans, New Jersey Nets, bar sigurorð af Phoenix í rafmögnuðum leik, 117-109. Harris gerði 47 stig, þar af 21 í fjórða leikhluta þar sem Nets unnu upp forskot Suns og skriðu framúr á lokasprettinum.
Nánar um leikinn og NBA-úrslit næturinnar hér að neðan:
Nets komu inn í fjórða leikhluta 11 stigum undir en skoruðu 43 stig í leikhlutanum og komust yfir fyrir fullt og allt þegar um 2 mínútur voru til leiksloka.
Fyrir utan slakan varnarleik geta Suns kennt sjálfum sér um því að þeir misstu boltann 22 sinnum og gerðu Nets 33 stig upp úr því.
Harris var ótrúlegur í þessum leik og var einnig með 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Vince Carter kom honum næstur með 28 stig.
Hjá Phoenix var það Steve Nash sem var bestur, með 26 stig og 9 stoðsendingar, en Amare Stoudamire var með 25 stig og 12 fráköst. Stoudamire er einn helsti sökudólgurinn því hann lét henda sér útaf með tvær tæknivillur fyrir tuð þegar rúmar 3 mínútur lifðu leiks og Phoenix leiddu 100-98.
LA Lakers héldu sig á beinu brautinni með enn einum sigrinum í nótt, nú var það Toronto Raptors sem mátti lúta í lægra haldi fyrir stórveldinu sem er með besta árangur allra liða í deildinni, hafa unnið 14 og aðeins tapað einum.
Úrslitin voru 112-99 en Kobe Bryant og fleiri byrjunarliðsmenn hvíldu í fjórða leikhluta eins og svo oft áður. Bryant hefði getað slegið með Wilts Chamberlains og verið yngstur frá upphafi til að ná 22.000 stigum, en hann hefði þurft að gera 38 stig í leiknum. Hann sagðist hins vegar ekki hafa verið að spá í þá hluti. Bryant var með 23 stig í leiknum, þar af 21 í fyrri hálfleik, en hans var ekki þörf vð að klára leikinn.
Pau Gasol var með 24 stig og 9 fráköst og Andrew Bynum var með 18 stig og 10 fráköst fyrir Lakers. Hjá Raptors var Anthony Parker stigahæstur með 19 stig og Andrea Bargnani var með 14 stig og 11 fráköst.
Meðal annarra úrslita næturinnar má geta þess að Denver Nuggets eru enn á fullri ferð og lögðu Houston í nótt, Chicago lagði Philadelphia og Portland sýndi styrk sinn í verki þegar þeir lögðu Detroit að velli.
Portland 96
Detroit 85
Chicago 103
Philadelphia 92
Houston 94
Denver 104
New Jersey 117
Phoenix 109
Toronto 99
LA Lakers 112
Mynd/nba.com
ÞJ



