Njarðvíkingurinn Lele Hardy er tæp fyrir leikinn gegn KR í Iceland Express deild kvenna en liðin mætast í Ljónagryfjunni annað kvöld. Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Njarðvíkinga sagði í snörpu samtali við Karfan.is að Hardy hefði misstigið sig illa á æfingu um síðustu helgi.
,,Ég veit ekki hversu alvarlegt þetta er. Ef hún er tæp á morgun þá spilar hún ekki gegn KR, við tökum stöðuna á henni á morgun,“ sagði Sverrir en Hardy fór mikinn í fyrsta leik Njarðvíkinga er hún setti 33 stig í leiknum gegn Haukum.