Ágúst Guðmundsson hefur stýrt 9. flokki Þórs á Akureyri til Íslands- og bikarmeistaratitils þetta tímabilið. Ágúst sem hefur löngum verið á meðal fremstu yngriflokkaþjálfara landsins sést jafnan við þjálfunarstörf sín með forláta NIKE peysu hengda á þjálfarastólinn. Ágúst sagði við Karfan.is á dögunum eftir að lið hans í 9. flokki Þórs frá Akureyri varð Íslandsmeistari að treyjan hefði gefið vel í gegnum árin. Sonur Ágústar leikur með 9. flokki Þórs en sá heitir Júlíus Orri og var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins í bikarnum og í úrslitum Íslandsmótsins.
„Ég keypti þessa peysu árið 1994 og hún hefur fylgt mér síðan, í tvígang hef ég gleymt henni þegar liðin mín spila úrslitaleiki og það gerðist núna síðast á Scania Cup,“ sagði Ágúst en þá urðu Þórsarar að láta sér lynda silfrið eftir úrslitaleik mótsins.
„Ég keypti treyjuna árið 1994 og var þá við þjálfun drengja f. 1980 sem náðu góðum árangri þ.e. urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar. Fljótlega fundum við félagarnir út úr því að peysan góða var orðin nokkuð sigursæl og ég klæddist henni undantekningalaust en hún gleymdist í einum úrslitaleik í þá daga og niðurstaðan var tap í þeim úrslitaleik. Taka skal fram að ég er alltaf í peysunni "regular season" utan úrslitaleikja að ég gerist prúðbúinn og kannski þess vegna gleymdist hún.
Eftir 10 ára hlé frá þjálfun tek ég að mér drengi f. 2001 og peysan góða rifin út úr skápnum, enda gott í henni. Nú er svo komið að drengirnir hafa unnið 26 leiki í röð(í þeirra árgangi) hér heima í bæði deild og bikar og ég ávallt klæðst peysunni í þeim leikjum. Í úrslitaleik á Scania Cup klæði ég mig auðvitað í betri föt samkv. venju en gleymdi blessaðri peysunni í gistirými okkar og því fór sem fór, niðurstaðan silfur!
Norðan heiða er þessi flík orðin umtöluð og mér heyrist hróður hennar hafa borist víðar og fjölmargir farnir að spyrjast fyrir um hana og brosa að sjálfsögðu út í annað við sérvisku þjálfarans. Niðurstaðan er samt sú að hún hefur gleymst tvisvar í úrslitaleikjum sem hafa tapast en á móti hafa 7 stórir titlar komið í hús hjá mér þegar hennar hefur notið við og á sama tíma afar hátt vinningshlutfall í þau ár sem ég hef þjálfað. Hverju er það svo um að þakka, auðvitað peysunni!“
Myndir/ [email protected] – Ágúst með treyjuna góðu í Hertz-Hellinum eftir að lið hans Þór frá Akureyri varð Íslandsmeistari í 9. flokki karla. Á neðri myndinni er Ágúst önnum kafinn við liðsstjórnina.