spot_img
HomeFréttirHannes: Sögulegt þegar bikarinn fer lengra en í Ártúnsbrekku

Hannes: Sögulegt þegar bikarinn fer lengra en í Ártúnsbrekku

 
„Þetta er klárlega körfuboltalegur sigur en fyrst og fremst sigur Snæfells og Stykkishólmsbæjar” sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, þegar Karfan.is nálgaðist hann með þá staðreynd að Snæfell er fyrsta liðið frá upphafi sem vinnur Íslandsbikarinn af landsbyggðarliðunum.
„Við erum þessi landsbyggðaríþrótt og Íslandsbikarinn hefur verið að fara í Reykjavík, Hafnarfjörð og Suðurnesin og ég var að tala um það við mann í gær að bikarinn hefur ekkert farið lengra en upp í Ártúnsbrekku og því er þetta mjög sögulegt þegar bikarinn fer aðeins lengra.”
 
„Þessi úrslitakeppni öll og veturinn í vetur má segja að sé sigur körfuboltans. Þetta er ákveðinn sigur að landsbyggðarlið eins og Snæfell er að taka þetta en fyrst og fremst sigur körfuboltans. Ég var líka að segja í gær við annan mann sem ég talaði við að vetur eftir vetur getum við varla toppað okkur ár frá ári en við erum að gera það. Ég ítreka það enn og aftur að þetta er sigur körfuboltans, þetta er sigur allra sem hafa komið nálægt körfuboltanum núna og undanfarin ár. Áhorfenda, leikmanna, stjórnarmanna, þjálfara og dómara, þetta er sigur heildarinnar” sagði Hannes og var ekkert að skafa af ánægju þess hvernig veturinn er búinn vera.
 
Keppnin í vetur er búin að vera ótrúlega jöfn og aldrei hefur lið sem endað hefur í 6. sæti deildarinnar lyft Íslandsbikarnum á endanum. Hannes sagðist sjálfur ekki muna eftir því og var í raun 99,9% viss um það.
 
„Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem að lið í 6. sæti fer þetta langt. Þetta sýnir bara hvað deildin var jöfn og hvað þetta var skemmtilegur vetur fram að úrslitakeppni svo kemur rjóminn ofan á þetta sem er úrslitakeppnin. Íþróttalífið á Íslandi snýst um körfubolta í mars og apríl og það er alveg sama hvar maður kemur í dag allir eru að tala um körfubolta. Alveg sama á hvaða kaffistofu, alveg sama hvaða veislu, það er komið til manns út í búð að spjalla um körfubolta. Körfubolti er aðalmálið í íslensku lífi í mars og apríl” sagði Hannes að lokum.
 
Viðtal: [email protected]  
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski Hannes afhenti Hólmurum þann stóra í gærkvöldi.
Fréttir
- Auglýsing -