Fyrir skemmstu varð það ljóst að Svíinn Peter Öqvist myndi ekki halda áfram með íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik. Karfan.is tók Hannes S. Jónsson formann KKÍ tali um stöðu mála og sagði hann að góður möguleiki væri á annarri erlendri ráðningu í stöðuna.
Peter Öqvist mun ekki stýra landsliðinu áfram, eru viðræður hafnar við mögulega eftirmenn hans? Munið þið leitast eftir innlendum þjálfurum sérstaklega eða möguleiki á annarri erlendri ráðningu? HM og EM – Nú er ljóst með hvaða liðum við leikum í forkeppni EM. Liðið er þó þjálfaralaust þó þau máli leysist vonandi sem fyrst. Er eitthvað vitað um hug okkar bestu leikmanna varðandi þátttöku í verkefninu
Við erum að vinna í landsliðsþjálfaramálunum þessa dagana og það er góður möguleiki að það verði önnur „erlend“ ráðning. Þeir leikmenn sem hafa verið í landsliðinu á undanförnum árum sem og þeir sem eru að banka á landsliðsdyrnar núna eru miklir toppmenn og mjög metnaðargjarnir fyrir hönd landsliðsins og þeir eru alltaf klárir þegar kemur að A-landsliðinu nema þegar um meiðsl er að ræða. Við höfum einnig heyrt hljóðið í flestum leikmönnunum sem voru með í fyrra og miðað við það þá gerum við ráð fyrir að allir séu klárir í spennandi verkefni sumararins. Að sjálfsögðu er það nú samt þannig að það getur verið erfitt þegar leikmenn eru komnir með fjölskyldu að vera í burtu á hverju einasta sumri í landsliðsverkefnum. Ég hef oft sagt að makar og börn leggja oft ekki síður mikið á sig í kringum allt sem snýr að körfuboltanum og það á svo sannarlega við í tengslum við landsliðin okkar.
Annað og kannski þessu tengt, Finnar drógust í riðil með t.d. Bandaríkjamönnum á HM. Þar voru Finnar inni á svokölluðu Wild-Card. Kostnaðurinn við að fá Wild-Card skilst okkur að sé um 500.000 Evrur eða Bandaríkjadollarar. Eftir kaupin hefst lotterý sem Finnar unnu, þeirra Wild Card umsókn var dregin út og þeir komust á HM? Er með þessu nánast hægt að segja að hægt sé að kaupa sér sæti á HM? Ef svo er, er það ekki bagaleg tilvera?
Ég vil byrja á því að að segja varðandi þetta að við hér á Íslandi og aðrar Norðurlandaþjóðir fögnum því að Finnar frændur okkar verði á HM og vonuðumst við innilega til þess að Finnland fengi eitt af þessum fjórum „wildcard“ sætum. Við munum fylgjast mjög vel með Finnum á HM og veita þeim allan þann stuðning sem hægt verður héðan frá Íslandi.
Það er ýmislegt sem FIBA lagði til grundvallar þessum „wild card“ úthlutunum eins og til dæmis; hversu stór er körfuboltinn í viðkomandi landi og/eða löndum í kring, hvernig markaðstarf er unnið af viðkomandi sambandi, er líklegt að margir áhofendur mæti á HM frá viðkomandi land og svona gæti ég talið upp mörg atriði til viðbótar. Stærsti hlutinn er því miður þessi fjárhagslegi sem sagt að „kaupa sig inn í HM” og það er auðvitað eitthvað sem á ekki að alls ekki að vera. Lönd eiga ekki að þurfa að kaupa sig inná HM í körfubolta. Þetta mun vonandi lagast fyrir næsta HM og svona „kaup“ verði ekki framar því árið 2017 mun væntanlega verða mikil breyting á keppnisfyrirkomulagi A-landsliðanna. Það verður loksins tekið upp svipað fyrirkomulag og í fótboltanum þar sem t.d. Ísland tekur þátt í undankeppni EM og HM og í svokölluðum „landsliðsgluggum“. Þá munu landsliðin í körfubolta keppa langflesta sína landsleiki í undankeppnum EM og HM yfir venjuleg keppnistímabil körfuboltans. Þetta hefur verið í umræðunni undanfarin tvö ár og FIBA hefur kynnt þetta vel fyrr aðildarlöndum sínum en það mun koma endanleg mynd á þetta á aukaþingi sem FIBA hefur boðað núna í mars í Tyrklandi.



