Karfan.is náði tali af Hannesi Jónssyni, nýendurkjörnum formanni KKÍ að loknu körfuknattleiksþingi sem lauk í gær. Hannes var spurður út í þær breytingar sem samþykktar voru á þinginu og hvað valdi því að rekstur sambandsins gangi svona vel eins og kom fram á þinginu.
Voru einhverjar stórfelldar breytingar á regluverkinu samþykktar á þessu þingi?
"Körfuknattleiksþingið var mjög starfsamt og góð vinna unnin þar sem þingfulltrúar skiptust á skoðunum og fóru málefnalega yfir málin. Yngri flokka málin voru stærsta málið sem lá fyrir þinginu og má segja að við séum að ramma betur inn mót yngstu krakkanna til að auka gæðin. Svo erum við að taka mjög spennandi skref á Íslandsmóti 11 ára og verður gaman að sjá hvernig til mun takast en sá flokkur er fyrsti flokkurinn sem keppt er í á Íslandsmótinu í körfubolta. Þær breytingar snúast að því að auka sveigjanleika og gæði ásamt því að fjölga mótum.
Þessar ákvarðanir eiga að styrkja grunninn á keppnishaldi okkar í körfuboltanum enn betur og efla það frábæra starf sem er unnið víðsvegar um landið.
Nokkrum tillögum var síðan vísað til nánari útfærslu hjá stjórninni eins og að bæta við 3. deild karla í körfubolta, fara yfir keppnishaldið í meistaraflokki kvenna, skoða það að spila hugsanlega þrjár umferðir í 1. deild karla og að í úrslitakeppni þurfi að vinna þrjá leiki í hverri umferð, útfæra betur venslasamninga. Nokkrar breytingar urðu á lögum sambandsins, t.d. varðandi hvernig þingfulltrúafjöldi félaganna verður í framtíðinn og að nú er ekki lengur þriggja manna varastjórn heldur eru 9 stjórnarmenn kjörnir ásamt formanni í stað sex áður og þriggja varamanna. Undanfarin 20 ár má segja að allir stjórnamenn hafi verið virkir sama hvort það voru aðal- eða varamenn þannig að þessi breyting var orðin tímabær"
Hvernig fór kjörið um reglur varðandi fjölda erlendra leikmanna á vellinum hverju sinni og kom niðurstaðan þér á óvart miðað við umræðuna fyrir þingið?
"Það voru 113 atkvæði sem tóku þátt í kosningunni varðandi erlendu leikmennina, 2 seðlar voru auðir, 73 vildu óbreytt ástand og 38 vildu gera breytingar. Þannig að vilji hreyfingarinnar er nokkuð ljós og á undanförnum þingum hefur þetta verið mun jafnara. Mikilvægast var að fá niðurstöðu í málið og hún er eins og sagði hér rétt áðan nokkuð afgerandi. Miðað við umræður á þinginu í nefndarstörfum þá var ég farin að búast við að svokölluð 3+2 regla yrði hugsanlega samþykkt en svo var ekki og það er því óbreytt 4+1."
Þið eigið verðskuldað hrós fyrir ánægjulega rekstrarniðurstöðu fyrir síðasta ár. Hvað er það sem gerir þetta mögulegt í því umhverfi sem körfuboltinn er í hérna á Íslandi? Eru vinsældir íþróttarinnar að aukast?
"Það er ýmislegt en körfuboltinn er í dag ein vinsælasta íþrótt landsins. Þeir samstarfsaðilar sem hafa unnið með okkur undanfarin ár hafa verið mjög ánægðir með samstarfið og þeir hafa lagt meira og meira fé til starfsins sem og að við höfum fengið fleiri öfluga samstarfsaðila með okkur. Landsliðin hafa verið að standa sig vel og svo sá glæsilegi árangur að við séum á leið á EuroBasket. Allt þetta hjálpast að við að fá fleiri samstarfsaðilia í lið við okkur og þannig getum við aukið útbreiðslu og hróður okkar frábæru íþróttar."



