Á morgun fara fram Poweradebikarúrslitin í karla- og kvennaflokki. Keflavík og Valur mætast í kvennaflokki en Grindavík og Stjarnan mætast í karlaflokki. Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ segir bikarúrslitin vera upphaf hápunktarins á tímabilinu.
,,Bikarúrslitin eru alltaf stórhátíðisdagur og klárlega einn af stærri hátíðisdögunum okkar í körfunni. Tilhlökkunin er alltaf mikil sem og undirbúningurinn sem fylgir þessum degi. Það má segja að frá og með bikarúrslitunum séu næstu tveir mánuðir undirlagðir körfubolta enda úrslitakeppnin í nánd og manni finnst hápunktur hvers tímabils hefjast með bikarúrslitahelginni,” sagði Hannes og er á meðal þeirra sem kunna vel við sig í Laugardalshöll.
,,Laugardalshöllin hefur alltaf sinn sjarma, liðum og leikmönnum finnst gaman að koma þangað og spila. Það hefur nú komið til umræðu að fara með leikinn í önnur hús en þá kemur alltaf upp þessi gamli sjarmi við að vera í Höllinni og Laugardalnum. Það er bara partur af veislunni. Ég tel að bikarinn sé kominn til að vera áfram í Laugardalshöll,” sagði Hannes og hvetur sem flesta til að leggja sér leið í Laugardalinn á morgun.
,,Ég hvet alla körfuboltaáhugamenn og almenna íþróttaáhugamenn að verða vitni að bikarúrslitunum og mæta og sjá körfuboltann í einstakri stemmningu og skemmtun.”



