spot_img
HomeFréttirHannes: Bæði Bretland og Bosnía sterk

Hannes: Bæði Bretland og Bosnía sterk

Dregið var í riðla fyrir forkeppni Evrópumeistaramótsins 2015 í Barcelona á Spáni í dag. Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands var viðstaddur dráttinn og sagði í samtali við Karfan.is að andstæðingar Íslands væru sterkir og erfiðir.
 
 
„Þetta er ágætis riðill en við hefðum viljað fá fjögurra liða riðil og þar af leiðandi fleiri leiki. Við eigum séns í þetta og riðillinn er ekki alsettur erfiðum ferðalögum, það er jú auðvelt að fara til Bretlands og ekki ýkja erfitt ferðalagið til Bosníu,“ sagði Hannes en hann og kollegar sínir á Norðurlöndum áttu sér draumariðil að sjálfsögðu.
 
„Það hefði verið draumur að fá Ítalíu, Svíþjóð og Danmörku með okkur í riðil, þetta var draumariðill okkar forsvarsmannanna af Norðurlöndum,“ sagði Hannes en viðurkenndi að A-riðillinn sem Ísland drógst í væri sterkur.
 
„Bæði liðin eru erfið, við eigum alveg möguleika en þetta er t.d. spurning um hvaða leikmenn verða með Bretum, við vitum ekki hvort þeirra bestu menn verði með eða ekki. Það er séns að stríða þessum þjóðum og komast til Úkraínu 2015, efsta liðið fer áfram og svo sex lið með bestan árangur í 2. sæti riðlanna í forkeppninni.“
 
Ráðgert er að leikirnir fari fram dagana 10.-27. ágúst næstkomandi. „Við sitjum hjá einhverja leikdaga þar sem það eru bara þrjú lið í okkar riðli og vonandi liggja leikdagarnir fyrir síðar í dag,“ sagði Hannes.
 
Aðspurður um hvor Peter Öqvist yrði með liðið í sumar sagði Hannes að þau mál ættu að skýrast fyrir vikulok.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -